Viðskipti innlent

Segir að meiri­hluti ferða­þjónustu­fyrir­tækja gæti farið í þrot grípi stjórn­völd ekki til að­gerða

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
713 starfsmönnum félaga í ferðaþjónustu og félögum tengdri ferðaþjónustu var sagt upp í mars.
713 starfsmönnum félaga í ferðaþjónustu og félögum tengdri ferðaþjónustu var sagt upp í mars. Vísir/Vilhelm

Stjórnvöld þurfa að grípa til sértækra aðgerða fyrir ferðaþjónustuna á næstu vikum eigi meirihluti fyrirtækja í greininni ekki að fara í þrot, segir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Samkvæmt nýrri skýrslu eru miklar líkur á að áhrif kórónuveirufaldursins vari í um eitt til tvö ár.

Rekstur fjölmargra ferðaþjónustufyrirtækja er á leiðinni í gjörgæslu þar sem greinin er nánast tekjulaus. Ríflega 23 þúsund launþegar voru skráðir í greininni í janúar 2020. 713 starfsmönnum félaga í ferðaþjónustu og félögum tengdri ferðaþjónustu var sagt upp í mars.

Þá hafa um 11 þúsund starfsmenn skráð sig í hlutastarf samkvæmt fyrstu tölum Vinnumálastofnunar. Þetta er meðal þess sem kemur fram skýrslunni Áhrif COVID-19 á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja sem ráðgjafarsvið KPMG hefur unnið með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála.

Áætlað er að gjaldeyristekjur á þessu ári lækki um 275 til 330 milljarða króna en gert er ráð fyrir að rekstrarvanda í greininni næstu tólf til 24 mánuði. Þá kemur fram að skuldsetning ferðaþjónustunnar hafi aukist mikið þrátt fyrir lítinn tekjuvöxt á undanförnum árum. Flestar greinar ferðaþjónustunnar séu um eða yfir sínu skuldaþoli.

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fjölmörg fyrirtæki í þrot

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir skýrsluna lýsa ástandinu í greininni vel. „Það liggur alveg á borðinu að ef að þróuninn verður eins og hún hefur verið verður nánast ekkert starfsfólk í greininni á næstu mánuðum.“

Bjarnheiður segir að ef ekki komi til aðgerða fari fjölmörg fyrirtæki í þrot á næstu vikum og mánuðum.

„Ég myndi segja að 80-90% fyrirtækja í greininni séu í raunverulegri hættu, að það þurfi einfaldlega að fara í sérstakar aðgerðir fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Þau eru mjög sérstakri stöðu. Ferðaþjónustan er eina atvinnugreinin sem er að glíma við svona mikið fall í tekjum, eins og við erum að horfa á núna. Og það yrði mjög alvarlegt mál þegar upp væri staðið ef það yrðu engin ferðaþjónustufyrirtæki eftir til að fara í viðspyrnuna.“

Hún segir að svo þetta gerist ekki þurfi að koma lífvænlegum fyrirtækjum í var. „Þau geti bara lokað og beðið þar til viðskipti fari í gang á nýjan leik,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×