Körfubolti

Sérstakt að leikurinn færi fram | Ánægð að hafa endað svona

Sindri Sverrisson skrifar

Þegar flest annað íþróttafólk í Evrópu var komið í ótímabundið hlé vegna kórónuveirufaraldursins varð Sara Rún Hinriksdóttir bikarmeistari í körfubolta í Bretlandi á sunnudaginn.

Sara var valin besti leikmaður vallarins þegar lið hennar Leicester Riders vann Durham Platinates í úrslitaleiknum, 70-66. Leikurinn fór fram þrátt fyrir að mestöllu keppnishaldi í Bretlandi hefði verið frestað. Kjartan Atli Kjartansson heyrði hljóðið í Söru í þættinum Sportið í dag, á Stöð 2 Sport. Innslagið má sjá hér að ofan.

„Mér fannst svolítið sérstakt að það áttu að vera tveir deildarleikir á laugardaginn, sem var hætt við, en samt var haldið til streitu að hafa bikarleikinn. Það voru því allir vissir um að þetta yrði síðasti leikurinn á tímabilinu. Og þjálfarinn okkar talaði einmitt mikið um þetta. Að margir leikmenn í Evrópu væru að hafa samband við sig því fólk vildi spila þennan leik, eiga einn leik eftir því hjá sumum var bara köttað á tímabilið. Ég er því svolítið ánægð að hafa fengið þennan leik og endað tímabilið svona,“ sagði Sara.

Sara á eitt ár eftir af meistaranámi sínu í alþjóðaviðskiptum sem hún sinnir samhliða körfuboltanum:

„Planið núna er að halda áfram hérna. Mér líður mjög vel hérna og þetta er allt æðislegt. Sportumhverfið er mjög flott hérna, maður er að æfa með ólympíuförum í sundi og hlaupum. Aðstaðan hérna er geggjuð og með því fremsta í Evrópu.“


Tengdar fréttir

Sara Rún best er Leicester vann bikarinn

Sara Rún Hinriksdóttir fór á kostum í úrslitaleik breska körfuboltans í dag. Var hún valin besti leikmaður vallarins er Leicester Riders lagði Durham Palatinates með fjögurra stiga mun, 70-66.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×