Erlent

Dómsmálaráðherra Svía sætir gagnrýni: Skrapp á útsölur til að kaupa jólagjöf handa mömmu og pabba

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Morgan Johansson hefur gengist við því að hafa gert mistök.
Morgan Johansson hefur gengist við því að hafa gert mistök. epa/Salvatore Di Nolfi

Dómsmálaráðherra Svía sætir nú gagnrýni eftir að hafa skellt sér á útsölur í Nova-verslanamiðstöðinni í Lundi á annan í jólum. 

Forsætisráðherrann Stefan Löfven, og samflokksmaður dómsmálaráðherrans, hafði í aðdraganda jóla sagt að falla ætti frá útsölunum þetta árið vegna Covid-19.

Að sögn viðstaddra mætti Morgan Johansson í verslunarmiðstöðina í fylgd nokkurra lífvarða, sem biðu með honum í biðröð fyrir utan þar sem fjöldi viðskiptavina inni hafði náð hámarki.

Johansson viðurkenndi í smáskilaboðum til SVT Nyheter að hann hefði lagt leið sína í verslunarmiðstöðina til að kaupa síðbúna jólagjöf handa foreldrum sínum. 

Gekkst hann við því að hafa verið kærulaus í ákvörðun sinni en hins vegar hefðu engin þrengsl myndast og mögulegt að virða fjarlægðarmörk vegna starfsmanna sem höfðu yfirsýn yfir fjölda viðskiptavina hverju sinni.

Í frétt SVT segir að Johansson hafi ekki gerst brotlegur við lög en bent á að athæfi hans hafi verið þvert á tilmæli heilbrigðisyfirvalda um að forðast verslanamiðstöðvar.

Fjölmiðlafulltrúi Löfven sagði í smáskilaboðum til SVT að forsætisráðherrann hefði átt í samskiptum við dómsmálaráðherrann og væri sammála því að hann hefði með hegðun sinni sýnt af sér kæruleysi.

Samkvæmt miðlinum var ekki mögulegt að koma í veg fyrir útsölurnar, ekki síst vegna þess að verslanamiðstöðvar hafa ekki heimild til að skipa einstaka verslunum að loka.

Joakim Esbjörnsson-Klemendz, prófessor í veirufræðum við háskólann í Lundi, segir hegðun Johansson „ótrúlega óviðeigandi“, ekki síst ef erindið var ekki brýnt, eins og að sækja lyf í apótek.

Þá hefur Johansson sætt gagnrýni stjórnarandstæðinga.

Frétt SVT.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×