Handbolti

Ein af stjörnum norska liðsins grét eftir að gullið var í höfn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem og Stine Bredal Oftedal lyfta hér EM-bikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.
Camilla Herrem og Stine Bredal Oftedal lyfta hér EM-bikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. EPA-EFE/HENNING BAGGER

Camilla Herrem hefur verið í öllum meistaraliðum Þóris Hergeirssonar og fór á kostum á Evrópumótinu í ár. Viðbrögð hennar í verðlaunaafhendingunni vöktu athygli.

Ein stærsta stjarnan í norska kvennalandsliðinu gat ekki haldið aftur af tárunum eftir að hafa tekið á móti Evrópumeistararbikarnum ásamt fyrirliðanum Stine Bredal Oftedal.

Á meðan allar landsliðskonur Noregs brostu út að eyrum með gullið um hálsinn þá mátti sjá tárin renna hjá vinstri hornamanninum Camilla Herrem.

Camilla Herrem, sem er orðin 34 ára gömul og hefur spilað með landsliðinu frá árinu 2006, var spurð út í tárin á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég ætla að reyna að gráta ekki en það verður erfitt,“ sagði Camilla Herrem áður en hún útskýrði tárin. TV2 sagði frá.

„Tárin voru vegna föður míns sem ég missti fyrir tveimur árum síðan. Hann hafði komið á öll stórmótin mín. Ég hugsaði til hans og hvað hann hefði verið stoltur af mér og liðinu mínu,“ sagði Herrem.

Faðir hennar hét Carl Otto Herrem og lést 63 ára að aldri í febrúar á síðasta ári.

Camilla Herrem hefur verið með í öllum sjö meistaraliðum norska kvennalandsliðsins í handbolta undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Hún var valin í úrvalslið EM í ár og var það í fjórða sinn sem hún komst í úrvalslið á stórmóti.

Camilla Herrem endaði sem fimmti markahæsti leikmaður Evrópumótsins í ár með 33 mörk í 8 leikjum. Herrmen nýtti sjötíu prósent skota sinna og það var aðeins einn leikmaður á öllu mótinu sem skoraði fleiri mörk utan af velli en hún.

Camilla Herrem er mikil hraðaupphlaupsmanneskja en 21 af 33 mörkum hennar komu úr hraðaupphlaupum eða 2,6 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×