Innlent

Skoða hvort hægt sé að af­létta hluta rýmingar

Sylvía Hall skrifar
Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Vísir/Egill

Vonast er til að hægt verði að aflétta hluta rýmingar á Seyðisfirði í dag. Aðgerðastjórn og Veðurstofan fundaði í morgun klukkan tíu í samhæfingarstöð almannavarna varðandi næstu skref en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin.

Neyðarstig er enn í gildi á Seyðisfirði eftir aurskriðurnar sem þar féllu síðustu daga. Hættustig er á Eskifirði og verður farið í frekari vettvangskannanir í dag. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir framhaldið ráðast af því hvað vettvangskönnun leiði í ljós.

„Það er ekki komin nein niðurstaða endanleg, en það er verið að skoða flöt á því að aflétta hluta rýmingar á Seyðisfirði í dag. Svo þarf að fara í frekari vettvangskannanir varðandi Eskifjörð áður en hægt er að ákveða með það en það er líka verið að skoða það. Það veltur á vettvangskönnun,“ segir Rögnvaldur í samtali við fréttastofu.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra,Vísir/Vilhelm

Hann segir gærdaginn hafa verið vel nýttan og gátu sérfræðingar kannað aðstæður.

„Það voru sérfræðingar frá Veðurstofunni að störfum í gær ásamt lögreglumönnum frá sérsveit ríkislögreglustjóra sem voru með dróna að skoða aðstæður og rýna í hlíðarnar og þau mælitæki sem eru á svæðinu til þess að safna gögnum. Gærdagurinn var vel nýttur.“

Rögnvaldur segir Seyðfirðinga hafa sýnt mikinn styrk við erfiðar aðstæður. 

„Ég hef ekki verið í beinu sambandi við fólk en það sem ég hef heyrt er að fólk tekur þessu af yfirvegun. Það hafa allir skilning á því hvað er í gangi og hafa sýnt mikla þolinmæði og þrautseigju. Hugur okkar er hjá þeim, fólkinu sem þurfti að yfirgefa heimili sín við þessar kringumstæður. Það er mjög erfitt.“

Ekki sé víst hvort fólk geti snúið heim til sín fyrir jól, en það væri óskastaða.

„Já vonandi. Það kemur í ljós.“


Tengdar fréttir

„Ég verð mjög feginn þegar 2020 er búið“

Lítil aurskriða féll á Seyðisfirði í morgun en viðbragðsaðilar hafa í dag unnið að gagnasöfnun og hættumati á svæðinu. Viðbragðsaðilar hafa meðal annars myndað Seyðisfjörð úr lofti með drónum, til þess að meta stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×