Viðskipti innlent

Gjaldþrot Bílanausts nam 855 milljónum króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Verslanir Bílanausts eru enn reknar en nú af eigendum Toyota í gegnum félagið Motormax.
Verslanir Bílanausts eru enn reknar en nú af eigendum Toyota í gegnum félagið Motormax. Vísir/Vilhelm

Skiptum á þrotabúi Bílanausts er lokið og námu samanlagðar kröfur í búið 855 milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Um 260 milljónir króna fengust greiddar upp í veð- og haldsréttarkröfur sem námu rúmlega 500 milljónum króna.

Ekkert fékkst greitt upp í forgangskröfur. Þær námu 153 milljónum króna. Almennar lýstar kröfur námu 462 milljónum króna og fengust ekki greiddar.

Verslunum Bílanausts var lokað þann 9. janúar 2019 og kom fram að lokað væri vegna breytinga. Í ljós kom að ástæða lokunar væri nokkur önnur en rekstrarvandræði fyrirtækisins höfðu verið vel kunn. Uppsafnað tap áranna 2012-2017 nam rúmlega 300 milljónum króna. Var félagið gjaldþrota.

Fór svo að eigendur Toyota á Íslandi keyptu þrotabúið í gegnum fyrirtækið Motormax. Fram kom í tilkynningu að áformað væri að reka áfram verslanir Bílanausts í Reykjavík, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Selfossi. Þá væri stefnt að opnun verslananna á Akureyri og Egilsstöðum síðar og hafa þær síðan verið opnaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×