Handbolti

Þórir henti lykilmanni út úr hópnum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veronica E. Kristiansen var valin besti maður vallarins á móti Póllandi.
Veronica E. Kristiansen var valin besti maður vallarins á móti Póllandi. EPA-EFE/BO AMSTRUP

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, gerði óvænta breytingu á EM-hópi sínum í dag en það er þó góð skýring á því.

Veronica Kristiansen er lykilmaður í norska landsliðinu og hefur spilað í 160 mínútur í fyrstu fimm leikjum Noregs á EM í handbolta. Hún er ekki lengur í EM-hópi Norðmanna.

Mikilvægi Veronicu Kristiansen fyrir norska liðið er mikið á báðum endum vallarins en hún hefur skorað 13 mörk og gefið 16 stoðsendingar á mótinu.

Það hafa líka bara fjórir leikmenn norska landsliðsins spilað meira en Veronica Kristiansen á þessu móti. Það eru Kari Dale (235 mín.), Camilla Herrem (214), Stine Bredal Oftedal (197) og Stine Skogrand (162).

Þórir tók Kristiansen út úr hópnum fyrir leikinn á móti Ungverjalandi í kvöld en norska liðið er þegar búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins.

Í staðinn kemur inn í liðið hin þrítuga Marta Tomac. Tomac spilar með liði Vipers frá Kristiansand og þekkir vel til margra leikmanna norska liðsins enda með sex liðfélaga úr Vipers í hópnum.

Þórir Hergeirsson útskýrði þessa óvæntu breytingu á hópnum. „Ég geri þessa breytingu til að stjórna leikjaálaginu hjá Veronicu Kristiansen,“ sagði Þórir.

Hann hefur áhyggjur af Veronicu Kristiansen af því að hún fékk kórónuveiruna í haust og missti mikið úr æfingum og leikjum með liði sínu Györi í Ungverjalandi.

Það er síðan búist við því að Veronica komi síðan aftur inn í hópinn fyrir undanúrslitaleikinn á föstudaginn. Þar mæta þær norsku Frakklandi, Rússlandi eða Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×