Lífið

Aldursfriðað hús í Skagafirði fæst gefins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ekki er leyfilegt að rífa húsið niður og því nauðsynlegt að endurgera.
Ekki er leyfilegt að rífa húsið niður og því nauðsynlegt að endurgera.

Gamla íbúðarhúsið á Höfða í Skagafirði fæst gefins gegn því að vera gert upp á nýjum stað.

Húsið var byggt árið 1892 og er því aldursfriðað samkvæmt lögum. Það þýðir að hvorki má rífa það né breyta á nokkurn hátt án samþykkis Minjastofnunar Íslands eins og kemur fram í grein á vefsíðu Minjastofnunnar.

„Núverandi eigendur sáu sér ekki fært að viðhalda húsinu og óskuðu eftir heimild til niðurrifs til Minjastofnunar. Samkomulag var gert um að auglýsa húsið gefins ef einhver vildi flytja það af staðnum og gera upp. Flytja þarf húsið af staðnum fyrir 1. júní 2021 og þurfa nýir eigendur að gera áætlun um uppbyggingu á nýjum stað,“ segir í greinargerðinni.

Um er að ræða timburhús á tveimur hæðum, klætt með bárujárni og pappa. Efri hæð hússins er undir súð en grunnflötur hússins er 9x5,8 m að utanmáli og vegghæð frá sökkli að þakskeggi er um 2,8 m. Samkvæmt fasteignaskrá reiknast húsið 53 fermetrar að stærð. Húsið er í slæmu ástandi og þarfnast umfangsmikilla viðgerða og endurbóta. Það er þó engu að síður gerlegt og rétt að benda á að hægt er að sækja um styrki til slíks í Húsafriðunarsjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×