Fótbolti

Þjálfari silfur­liðs Argentínu fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Alejandro Sabella og Lionel Messi eftir úrslitaleik Argentínu og Þýskalands árið 2014.
Alejandro Sabella og Lionel Messi eftir úrslitaleik Argentínu og Þýskalands árið 2014. Getty

Aðeins fáeinum vikum eftir andlát Diegos Maradona skekur annað andlát argentískan fótboltaheim. Alejandro Sabella, sem stýrði silfurliði Argentínu á heimsmeistaramótinu 2014, er látinn, 66 ára að aldri.

Draumur Sabella um að stýra Argentínu til sigurs á heimsmeistaramótinu 2014 varð að engu þegar Mario Götze skoraði sigurmarkið í framlengingu.

Sabella átti farsælan feril sem leikmaður og spilaði lengst af sem sóknarsinnaður miðjumaður, meðal annars með River Plate og Estudiantes. Hann var í hópi fyrstu leikmannanna frá Suður-Ameríku til að spila á Englandi þar sem hann lék með bæði Sheffield United og Leeds á árunum 1978 til 1981.

Þjálfaraferill Sabella var stuttur en farsæll – tvö tímabil með félagsliði og svo þrjú ár sem landsliðsþjálfari Argentínu, 2011 til 2014.

Hann stýrði liði Estudiantes til sigurs í Copa Libertadores árið 2009 en var svo ráðinn landsliðsþjálfari Argentínu 2011. Hann gerði Lionel Messi að fyrirliða landsliðsins þegar hann var ráðinn.

Sabella glímdi við krabbamein en lést af völdum veirusýkingar að því er fram kemur í argentínskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×