Erlent

Af­glæpa­væðing kanna­bis­efna sam­þykkt í full­trúa­deildinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ólíklegt þykir að kannabisfrumvarpið verði samþykkt í öldungadeildinni.
Ólíklegt þykir að kannabisfrumvarpið verði samþykkt í öldungadeildinni. Konstantinos Tsakalidis/Bloomberg/getty

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag lagafrumvarp um afglæpavæðingu kannabisefna í fyrsta sinn. Í frumvarpinu er kannabis fjarlægt af alríkislista yfir ólögleg fíkniefni og dómar tengdir efninu afmáðir af sakaskrá fólks.

Þó að frumvarpið hafi verið samþykkt í fulltrúadeildinni með 228 atkvæðum gegn 164 er talið afar ólíklegt að það verði samþykkt, hvað þá tekið til umfjöllunar, í öldungadeild þingsins, hvar repúblikanar ráða ríkjum.

Í frumvarpinu er lagt til að kannabistengdir dómar, sem ekki eru ofbeldistengdir, verði fjarlægðir af sakaskrá fólks, auk þess sem fyrirtækjum tengdum kannabisiðnaðinum verði gert auðveldara að fá styrki eða lán. 

Einnig er lagt til að settur verði sérstakur skattur á kannabisvörur, sem veitt væri í sjóð handa samfélagshópum sem orðið hafa hvað verst úti úr „eiturlyfjastríði“ bandarískra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×