Erlent

Obama treystir Fauci og segist myndu láta sjónvarpa bólusetningu sinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sendi nýverið frá sér bókina A Promised Land en um er að ræða fyrra bindið af tveimur um árin í Hvíta húsinu.
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sendi nýverið frá sér bókina A Promised Land en um er að ræða fyrra bindið af tveimur um árin í Hvíta húsinu. epa/Dennis Brack

Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, segist hiklaust munu láta bólusetja sig ef Anthony Fauci, æðsti sóttvarnasérfræðingurinn vestanhafs, segir það óhætt.

Obama sagðist jafnvel myndu láta taka bólusetninguna upp og sjónvarpa henni til að sýna það traust sem hann ber til ráðlegginga vísindamanna.

Ummælin lét forsetinn fyrrverandi falla í viðtali við The Joe Madison Show á Sirius XM en það var tekið upp í dag og verður birt á morgun.

„Fólk eins og Anthony Fauci, sem ég þekki og hef unnið með; ég treysti því fullkomlega,“ sagði Obama. „Þannig að ef Anthony Fauci segir mér að bóluefnið sé öruggt og geti gert þig ónæman fyrir Covid, þá mun ég hiklaust þiggja bólusetningu.“

Biðlar sérstaklega til svartra

„Ég lofa þér því að þegar það verður aðgengilegt fólki sem er í minni áhættu þá mun ég láta bólusetja mig,“ hélt Obama áfram. „Ég gæti endað á því að fá bóluefnið í sjónvarpinu eða á því að láta taka bólusetninguna upp, til að sýna fólki að ég treysti þessum vísindum.“

Obama sagðist meðvitaður um efasemdir svartra gagnvart bóluefnunum, sérstaklega í ljósi sögu læknavísindanna vestanhafs og vísaði m.a. til þess þegar rannsakendur á vegum hins opinbera fylgdust með fátækum, svörtum mönnum í 40 ár án þess að upplýsa þá um að þeir væru með sárasótt.

Hann hvatti svarta hins vegar til að þiggja bólusetningu ef sérfræðingar segðu bóluefnin örugg og minnti á að smit og dauðsföll af völdum Covid-19 væru tíðari meðal minnihlutahópa.

Fleiri en 13 milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með sjúkdóminn og 272 þúsund látist.

Politico greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×