Erlent

Mætti ó­boðinn á leyni­legan fjar­fund varnar­mála­ráð­herra ESB

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eins og sjá má skar hinn hollenski Verlaan sig úr þegar hann var kominn inn á fundinn.
Eins og sjá má skar hinn hollenski Verlaan sig úr þegar hann var kominn inn á fundinn. Twitter

Hollenskum blaðamanni að nafni Daniel Verlaan tókst að komast inn á leynilegan fjarfund þar sem varnarmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna ræddu saman. Hann komst inn á fundinn eftir að varnarmálaráðherra Hollands deildi upplýsingum um fundinn á Twitter fyrir slysni.

Í myndbandi af atvikinu sést að Verlaan var heldur hissa þegar honum var hlepyt inn á fundinn. Hann var þó léttur í bragði og veifaði til fundargesta. 

„Þú veist að þú ert búinn að hoppa inn á leynilegan fund,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.

„Já, fyrirgefið. Ég er blaðamaður frá Hollandi. Afsakið að ég skuli hafa truflað fundinn ykkar,“ sagði Verlaan og kvaðst ætla að yfirgefa fundinn.

„Þú veist að þetta er lögbrot, er það ekki? Þú ættir að fara áður en lögreglan kemur,“ sagði Borrell þá.

Þó að uppákoman hafi vakið mikinn hlátur viðstaddra er málið litið alvarlegum augum og verður tilkynnt til viðeigandi yfirvalda, að því er breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni utanríkismálaráðs Evrópusambandsins.

Talsmaður hollenska varnarmálaráðuneytisins segir „heimskuleg mistök“ hafa valdið því að upplýsingar til þess að komast inn á fundinn hafi farið á netið.

„Þetta sýnir hversu varlega maður þarf að fara þegar maður sendir myndir af svona fundum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×