Innlent

Vilji allra stjórnarflokkanna að finna lausn til að afgreiða fjölmiðlafrumvarpið

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Menntamálaráðherra segir að það sé vilji allra stjórnarflokkanna að finna farsæla lausn til að afgreiða fjölmiðlafrumvarpið. Flokkarnir vinni að lausn í sameiningu en heimildir fréttastofu herma að ein útfærslan sé að gera breytingar á skattaumhverfi fjölmiðla. 

Hér á landi er nú, þriðja árið í röð, beðið eftir lausn á vanda einkarekinna fjölmiðla. Á þessu kjörtímabili var boðað að frumvarpið yrði lagt fram í október en sá mánuður fékk að líða án frétta af málinu.

Heimildir fréttastofu herma að stjórnarflokkarnir ræði nú sín á milli um mögulega aðrar leiðir til að koma til móts við rekstrarvanda einkarekinna fjlmiðla. Ein möguleg útfærsla sem rædd hefur verið er að gerðar verði breytingar á skattaumhverfi fjölmiðla sem koma eigi til móts við rekstrarvanda þeirra.

Lilja Alfreðsdóttir sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að enn sé unnið að frumvarpinu.

„Það stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að við viljum styðja við einkarekna fjölmiðla og við höfum gert það einu sinni í tenglsum við Covid-19 en við höldum áfram að vinna að þessu,“ sagði Lilja. 

Fjallað hefur verið um að frumvarpið hafi mætt andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafi hafnað því að veita frumvarpinu brautargengi. Lilja segir að stjórnarflokkarnir vinni að þessu í sameiningu.

„Við sjáum hvað kemur út úr þessu. Það er vilji allra að það verði farsæl lausn á þessu og við sjáum hvað setur,“ segir Lilja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×