Erlent

900 starfsmenn Mayo Clinic smitast á tveimur vikum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn viðhafa ýtrustu sóttvarnir í vinnunni en eru berskjaldaðri fyrir Covid-19 úti í samfélaginu.
Heilbrigðisstarfsmenn viðhafa ýtrustu sóttvarnir í vinnunni en eru berskjaldaðri fyrir Covid-19 úti í samfélaginu. epa/Giuseppe Lami

Fleiri en 900 starfsmenn Mayo Clinic, eins virtasta rannsóknarsjúkrahúss Bandaríkjanna, hafa smitast af Covid-19 á aðeins tveimur vikum. Næstum allir smituðust utan vinnu en tölurnar þykja sýna hvaða áhrif mikið samfélagssmit getur haft á starfsemi heilbrigðisstofnana.

Samkvæmt yfirlækni á spítalanum smituðust 93% starfsmanna utan spítalans en allir þeir sem smituðust á vinnustaðnum eru taldir hafa smitast þegar þeir tóku af sér grímurnar til að borða.

Umræddur hópur telur þriðjung þeirra starfsmanna sem hafa smitast frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst en höfðustöðvar Mayo Clinic í Rochester í Minnesota er nú þúsund starfsmönnum frá fullri mönnun.

„Þetta sýnir það hversu auðvelt það er að fá Covid-19 í mið-vesturríkjunum,“ hefur Guardian eftir Amy Williams. „Starfsfólk okkar er að mestu að smitast vegna útbreiðslu í samfélaginu og það hefur áhrif á getu okkar til að annast sjúklingana okkar.“

Ekki hefur komið fram hvort smit meðal starfsmanna hafi leitt til dauðsfalla en samkvæmt rannsóknarvinnu Guardian og Kaiser Health News hafa að minnsta kosti 1.396 heilbrigðisstarfsmenn látið lífið af völdum veirunnar.

Um 161 þúsund tilfelli Covid-19 greindust í Bandaríkjunum í gær og þá lágu 76.830 á sjúkrastofnunum vegna sjúkdómsins. 

Williams segir marga spítala í mið-vesturríkjunum yfirfulla. 


Tengdar fréttir

Áunnið ónæmi gæti varað ár eða áratugi

Rannsóknarniðurstöður vísindamanna við La Jolla Institute of Immunology í Bandaríkjunum vekja vonir um að áunnið ónæmi gegn SARS-CoV-2 geti varað í mörg ár eða jafnvel áratugi. Flestir þeirra sem tóku þátt í rannsókn stofnunarinnar bjuggu enn að nógu góðu ónæmissvari átta mánuðum eftir smit til að vinna á veirunni og koma í veg fyrir veikindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×