Erlent

Óttast á­hrif fækkunar í her­liði Banda­ríkja­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir mögulegt að kostnaðurinn við að kalla herliðið heim of snemma kunni að verða mjög mikill.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir mögulegt að kostnaðurinn við að kalla herliðið heim of snemma kunni að verða mjög mikill. Getty

Háttsettir þingmenn Repúblikana á Bandaríkjaþingi og framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalandsins hafa lýst yfir áhyggjum af ákvörðun stjórnar Donalds Trump, fráfarandi Bandríkjaforseta, að fækka í herliði Bandaríkjamanna í bæði í Írak og Afganistan.

Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að til standi að fækka í herliði Bandaríkjahers í Írak og Afganistan um 2.500 fyrir miðjan janúarmánuð. Trump mun hætta í embætti þann 20. janúar.

Trump hefur lengi kallað eftir því að bandarískt herlið í heimshlutanum verði kallað heim og verið gagnrýninn á íhlutun Bandaríkjamanna á erlendri grundu.

Kostnaðurinn mikill

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að kostnaðurinn við að kalla herliðið heim of snemma og án þess að stilla saman strengi, kunni að verða „mjög mikill“. Þá sé hætta á að Afganistan kunni aftur að verða vettvangur fyrir alþjóðlega uppreisnarmenn til að skipuleggja árásir sínar.

Þá hefur Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, sagt ákvörðunina vera „mistök“, en McConnell hefur almennt verið hliðhollur Trump og varið stefnu hans. McConnell varaði forsetann jafnframt við að gera grundvallarbreytingar á utanríkis- og varnarmálastefnu landsins áður en hann hyrfi úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×