Erlent

Segja fréttir af af­töku al-Qa­eda leið­toga ekki á rökum reistar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Saied Khatibzadeh, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, dró fréttaflutning af aftöku Abu Muhammad al-Marsi í efa á blaðamannafundi í Tehran í dag.
Saied Khatibzadeh, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, dró fréttaflutning af aftöku Abu Muhammad al-Marsi í efa á blaðamannafundi í Tehran í dag. EPA

Írönsk stjórnvöld segja fréttir aftöku al-Qaeda leiðtoga í höfuðborginni Tehran ekki vera á rökum reistar. New York Times greindi frá því í gær að Abdullah Ahmed Abdullah, betur þekktur sem Abu Muhammad al-Marsi, næstæðsti leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, hafi verið ráðinn af dögum í Tehran í ágúst.

New York Times hafði eftir ónefndum heimildarmanni innan úr bandarísku leyniþjónustunni að al-Marsi hafi verið skotinn af ísraelskum leyniþjónustumönnum úti á götu í Tehran í sumar. Íranir segja þetta ekki vera rétt og að engir al-Qaeda „hryðjuverkamenn“ búi í landinu.

Al-Marsi er meðal annars sakaður um að hafa lagt á ráðin um árásir sem gerðar voru á sendiráð Bandaríkjanna í Afríku árið 1998. Samkvæmt frétt New York Times var hann skotinn til bana ásamt dóttur sinni af tveimur byssumönnum á mótorhjóli þann 7. ágúst.

Samkvæmt fréttinni munu Íranar hafa reyna að hylma yfir málið en í fréttum íranskra og líbanskra fjölmiðla af málinu í sumar hafi fórnarlömb skotárásarinnar þann 7. ágúst verið sögð sagnfræðiprófessor og dóttir hans, en ekki alræmdur leiðtogi innan al-Qaeda.

Íranska utanríkisráðuneytið vísar þessu á bug. „Annað slagið reyna Washington og Tel Aviv að bendla Íran við slík samtök með því að ljúga og leka fölskum upplýsingum til fjölmiðla til að reyna að komast undan ábyrgð vegna glæpa þessara samtaka og annarra hryðjuverkasamtaka á svæðinu,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins. Yfirvöld í Bandaríkjunum og Ísrael hafa enn sem komið er ekki brugðist við yfirlýsingunni að því er segir í frétt BBC af málinu.

Al-Marsi var meðal þeirra sem stofnuðu al-Qaeda sem borið hefur ábyrgð á fjölda árásá í Miðausturlöndum og í Afríku auk hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Al-Marsi er meðal annars sakaður um að standa á bak við árásirnar sem gerðar voru á sendiráð Bandaríkjanna í Kenía og Tansaníu árið 1998 þar sem 224 létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×