Innlent

Ekki alveg sammála um þurrkarann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi við Hafnarstræti í maí.
Frá vettvangi við Hafnarstræti í maí. Vísir/tryggvi

Talið er líklegast að eldur sem kviknaði í íbúðarhúsi við Hafnarstræti á Akureyri í maí, með þeim afleiðingum að karlmaður á sjötugsaldri lést, hafi kviknað út frá þurrkara. Rannsakendur komu sér þó ekki alveg saman um eldsupptök, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Norðurlandi eystra.

Eldurinn kom upp í húsinu við Hafnarstræti að kvöldi 19. maí síðastliðinn en grunur vaknaði um það strax í upphafi að húsið væri ekki mannlaust. Reykkafarar fundu svo mann meðvitundarlausan á miðhæðinni. Hann var strax fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur en lést á gjörgæsludeild Landspítalann að kvöldi 20. maí, sólarhring eftir að eldurinn kviknaði.

Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Norðurlandi eystra segir í samtali við Vísi að rannsókn á brunanum í Hafnarstræti sé lokið. Líklegast sé að eldurinn hafi kviknað út frá þurrkara í húsinu, líkt og talið var strax í upphafi.

Rannsakendur hafi þó ekki verið alveg sammála; þannig hafi fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ekki getað fullyrt með óyggjandi hætti að það hefði verið eitthvað í þurrkaranum sem brann. Fulltrúar frá tæknideild lögreglu sem skoðuðu vettvang fullyrði hins vegar að eldsupptök hafi verið fyrir aftan þurrkarann. Ummerki bendi til þess.

Húsið við Hafnarstræti var á meðal elstu húsa Akureyrarbæjar og fór afar illa út úr brunanum. Eldurinn var mikill og það tók slökkvilið tæpar fimm klukkustundir að ná tökum á aðstæðum. Þá safnaðist stór hópur fólks saman í grennd við vettvanginn til að fylgjast með störfum slökkviliðsins, sem gerði slökkviliðsmönnum erfitt fyrir.


Tengdar fréttir

Látinn eftir eldsvoðann á Akureyri

Karlmaðurinn sem fluttur var með sjúkraflugi til Reykjavíkur með sjúkraflugi eftir bruna í Hafnarstræti á Akureyri í fyrradag er látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×