Erlent

Flýja Afríku og stefna til Kanarí

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þessir flóttamenn komust yfir til Malaga frá Afríku, en sífellt fleiri hætta nú á sjóferðina yfir til Kanaríeyja í staðinn, sem er mun hættulegri för. 
Þessir flóttamenn komust yfir til Malaga frá Afríku, en sífellt fleiri hætta nú á sjóferðina yfir til Kanaríeyja í staðinn, sem er mun hættulegri för.  Jesus Merida/Getty Images

Rúmlega 1600 flóttamenn hafa komið til Kanaríeyja um helgina, eða verið bjargað úti fyrir ströndum eyjaklasans. Um þúsund komu á laugardag á um tuttugu bátum sem fæstir voru sjófærir.

Mikil aukning hefur orðið á komu flóttafólks frá Vestur Afríku yfir til Kanaríeyja síðustu mánuði en eyjarnar liggja aðeins í um 100 kílómetra fjarlægð frá meginlandi Afríku.

Um ellefu þúsund manns hafa komið til eyjanna á þessu ári, en á öllu árinu í fyrra voru skráðar komur flóttafólks rúmlega 2500. Ástæða aukningarinnar mun meðal annars vera sú að yfirvöld í Marokkó hafa hert verulega á landamæragæslu sinni og því er erfiðara en áður fyrir fólk að komast þaðan yfir Miðjarðarhafið og beint til Evrópu. Þessi leið er þó talin mun hættulegri og er talið að rúmlega 400 manns hafi farist það sem af er þessu ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×