Innlent

Skoða hvort lögreglumaður verði sendur í leyfi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Málinu hefur verið vísað til Héraðssaksóknara. 
Málinu hefur verið vísað til Héraðssaksóknara.  vísir/vilhelm

Til skoðunar er hvort einn lögreglumaður verðir sendur í leyfi á meðan rannsókn Héraðssaksóknara á meintu ofbeldi við handtöku er í gangi. Þetta segir Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Ákvörðun um hvort maðurinn verði sendur í leyfi liggur þó ekki fyrir.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að maður hafi verið stöðvaður vegna gruns um vöslu fíkniefna og hann hafi sagst vera með Covid-19. Haft er eftir sjónarvottum sem ekki vilja láta nafns síns getið að fjórir lögreglumenn sem handtóku manninn við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði síðasta mánudag, hafi gengið allt of langt í aðgerðum sínum og eru lögreglumennirnir sakaðir um gróft ofbeldi. Í blaðinu lýsa sjónarvottarnir því að einn lögreglumannannana hafi slegið inn handtekna ítrekað í höfuðið með kylfu þar til hann rotaðist og féll í jörðina. Þá er bent á að samkvæmt reglum um vadbeitingu lögreglumanna sé óheimilt að beina höggi að höfði.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins segir að málinu hafi verið vísað til Héraðssaksóknara. Á meðal málsgagna séu upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir að málið sé komið á borð Héraðssaksóknara og segir að nú þegar sé hafin skoðun á gögnum málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×