Innlent

Landsréttur telur Geymslur ekki skaðabótaskyldar vegna stórbrunans í Garðabæ

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gríðarlegt tjón varð í stórbrunanum í Garðabæ árið 2018.
Gríðarlegt tjón varð í stórbrunanum í Garðabæ árið 2018. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur sýknað fyrirtækið Geymslur af þremur kröfum um að það bæri skaðabótaábyrgð vegna stórbrunans sem varð í húsnæði fyrirtækisins við Miðhraun í Garðabæ í apríl 2018.

Alls var um þrjú mál að ræða en héraðsdómur hafnaði á síðasta ári að fyrirtækið væri bótaskylt. Fyrirtækið var sýknað á þeirri forsendu að um húsaleigusamning á milli fyrirtækisins og leigutaka væri að ræða, en ekki geymslusamning.

Í öllum þremur málunum staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms og standa því þeir óraskaðir. Dómana má nálgast hér, hér og hér.

Stór hópur fólks var að baki málsókninni gegn Geymslum og í samtali við Vísi segir Guðni Á. Haraldsson, lögmaður hópsins, að um 60 manna hóp sé að ræða. 

Niðurstaða Landsréttar er fordæmisgefandi fyrir mál þeirra sem mynda hópinn og segir Guðni að ólíklegt sé að þeir sem beðið hafi eftir niðurstöðu þessara mála muni halda áfram með þau.

Hann segir þó að farið verði yfir það í rólegheitum með þeim sem höfðuðu málin þrjú sem fóru fyrir héraðsdóm og Landsrétt hvort að óskað verði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×