Erlent

Annar met­dagur í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um hertar aðgerðir fyrr í vikunni.
Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um hertar aðgerðir fyrr í vikunni. EPA

Alls greindist 1.191 með kórónuveiruna í Danmörku í gær og er um að ræða mesta fjöldann í landinu á einum og sama deginum frá upphafi faraldursins.

DR segir frá þessu, en tekur sérstaklega fram að aldrei hafi fleiri sýni verið tekin sama daginn í landinu, eða alls rúmlega 71 þúsund, sem kunni að skýra þennan mikla fjölda sem greindist í gær.

Ennfremur segir að fólki sem er á sjúkrahúsi vegna Covid-19 hafi fjölgað um fimm milli daga, og eru nú 144.

Dauðsföllum í Danmörku sem rakin eru til Covid-19 fjölgaði um þrjú, en alls hafa nú 719 látið lífið vegna Covid-19 í Danmörku frá upphafi faraldursins.

Ennfremur segir að skráðum smitum hafi fjölgað í nær öllum sveitarfélögum landsins, og sé staðan sérstaklega slæm í 93 þeirra þar sem smittíðnin er nú hærri en 20 á hverja 100 þúsund íbúa. 

Þau ellefu sveitarfélög þar sem staðan er verst, eru öll á Kaupmannahafnarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×