Innlent

Lögreglan ræðir við áhöfn Júllans

Birgir Olgeirsson skrifar
Júlíus Geirmundsson er gerður út frá Ísafirði. 
Júlíus Geirmundsson er gerður út frá Ísafirði.  Vísir/Hafþór

Lögreglan á Vestfjörðum mun ræða við áhöfn frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar. Tuttugu og tveir af 25 skipverjum sýktust af kórónuveirunni sem kom upp um borð fljótlega eftir að skipið lagði út á haf. Þrátt fyrir það hélt skipið áfram veiðum í túr sem tók þrjár vikur.

„Það hefur enginn verið sakaður um einhver brot. Miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum þá er nauðsynlegt að heyra í mannskapnum og sjá hvað kemur út úr því,“ segir Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, í samtali við fréttastofu.

Hluti áhafnarinnar er nú í farsóttahúsi á Holti í Önundarfirði en lögreglan mun ræða við áhöfnina í gegnum síma.

Karl telur að málið muni ekki fara fyrir sjópróf, það heyri til undantekninga að slíkt sé gert.

Spurður hvaða lagaákvæða lögreglan horfir til vegna málsins segist Karl ekki vilja ræða það að svo stöddu.

Skipverjar hafa lýst miklu veikindum og telja útgerðina, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, ekki hafa haft heilsu þeirra að leiðarljósi. Sjávarútvegsráðherra hefur fordæmt viðbrögð útgerðarinnar sem og þingflokkur Vinstri grænna. Framkvæmdastjóri HG sagði fyrirtækið ekki hafa viðhaft rétta verkferla vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×