Sport

Langri bið lýkur í Búdapest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinbjörn Jun Iura rær öllum árum að því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó.
Sveinbjörn Jun Iura rær öllum árum að því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó. úr einkasafni

Júdókappinn Sveinbjörn Jun Iura keppir á morgun á Grand Slam mótinu í Búdapest í Ungverjalandi. Þetta er fyrsta mót Alþjóða júdósambandsins síðan í febrúar, eða frá því kórónuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina.

Sveinbjörn mætir Damian Szwarnowiecki frá Póllandi í -81 kg flokki á morgun. Sigurvegarinn mætir Portúgalanum Joao Martinho í næstu umferð. Viðureign Sveinbjörns og Szwarnowiecki hefst um klukkan 07:00 í fyrramálið.

Alls taka 408 keppendur frá 61 landi þátt á Grand Slam mótinu. Karlkyns keppendur eru 256 og kvenkyns keppendur 152. Alls eru 49 keppendur í -81 kg flokknum sem Sveinbjörn keppir í.

Miklar kröfur eru gerðar til þátttakenda varðandi smitvarnir. Sveinbjörn og aðstoðarmaður hans, Þormóður Árni Jónsson, hafa gengist undir þrjár skimanir, tvær á Íslandi og eina eftir komuna til Ungverjalands.

Sveinbjörn stefnir að því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó sem áttu að fara fram í ár en var frestað til 2021 vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×