Erlent

Allt bendir til öruggs sigurs sósíalista í Bólivíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Luis Arce sést hér fyrir miðri mynd fagna sigri með stuðningsmönnum sínum.
Luis Arce sést hér fyrir miðri mynd fagna sigri með stuðningsmönnum sínum. Getty/Gaston Brito Miserocch

Allt bendir til þess að Luis Arce, frambjóðandi sósíalista í forsetakosningunum sem fram fóru í Bólivíu um helgina, hafi unnið öruggan sigur, þannig að ekki þurfi að kjósa á ná á milli tveggja efstu manna.

Kosningarnar fóru friðsamlega fram og útgönguspár benda til þess að Arce hafi fengið 52,4 prósent atkvæða í kosningunum, rúmum 20 prósentum meira en hægrimaðurinn Carlos Mesa, sem er fyrrverandi forseti landsins.

Þó á eftir að telja mikinn meirihluta atkvæða í landinu og því óljóst hvernig atkvæði munu nákvæmlega skiptast.

Í Bólivíu þarf frambjóðandi að ná að minnsta kosti 40 prósentum atkvæða og tíu prósenta forskoti á næsta mann til að ná kjöri í fyrstu atrennu.

Luis Arce er frambjóðandi flokks fyrrverandi forseta Bólivíu, Evo Morales, sem hrökklaðist frá völdum og í útlegð til Argentínu í fyrra vegna ásakana um kosningasvindl og blóðug mótmæli. Morales hafði þá verið forseti í fjórtán ár.

Arce er fyrrverandi efnahagsmálaráðherra Morales sem hefur stutt við bakið á lærisveini sínum með ráð og dáð úr útlegðinni.

Kosningarnar nú eru sagðar ákveðinn prófsteinn á lýðræðið í landinu og sagði Arce í ræðu sinni þegar hann lýsti yfir sigri að lýðræðið hefði verið endurheimt í Bólivíu. Hann lofaði að standa við fyrirætlanir sínar og sagði að ríkisstjórn sín yrði ríkisstjórn allra íbúa Bólivíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×