Erlent

Sósíalistar gætu komist aftur til valda í Bólivíu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hermenn arka götur La Paz í Bólivíu í gær, daginn fyrir kjördag.
Hermenn arka götur La Paz í Bólivíu í gær, daginn fyrir kjördag. Getty/Gaston Brito

Forsetakosningar fara fram í Bólivíu í dag, í miðjum heimsfaraldri en talsverð spenna hefur ríkt í aðdraganda kosninganna. Ef marka má skoðanakannanir gæti farið svo að sósíalistar komist aftur til valda eftir um það bil eins árs tíð hægristjórnar. Kosningarnar sem fram fara í dag eru í raun endurtekning kosninganna sem fram fóru í október 2019 sem einkenndust af mikilli ringulreið og leiddu til þess að Evo Morales, forseti Bólivíu á vinstri væng stjórnmálanna, sagði af sér og hrökklaðist úr landi.

Morales hafði þá gegnt embætti forseta frá árinu 2006 en hann er sá fyrsti sem er af ættum frumbyggja í Bólivíu til að gegna embættinu. Kosningarnar í dag gætu gert Morales kleift að snúa aftur til Bólivíu, en hann vill meina að honum hafi verið bolað burt með valdaráni leiddu af hægriöflum sem hafa farið með stjórn landsins síðan.

Evo Morales hefur verið í útlegð í Argentínu síðan hann hrokklaðist frá völdum í fyrra.EPA/Juan Ignacio Roncoroni

Sjálfur er forsetinn fyrrverandi ekki í framboði en flokkur hans, Sósíalistahreyfingin og forsetaefni flokksins, Luis Arce, hafa leitt í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna.

Carlos Mesa, fyrrverandi forseti og leiðtogi miðjuflokks um Bandalag borgaranna, hefur mælst með næst mest fylgi í skoðanakönnunum. Auk þess að kjósa forseta velja Bólivíumenn sér einnig varaforseta og 166 þingmenn í dag.

Ef enginn frambjóðenda hlýtur 50% fylgi eða meira í dag, eða þá 40% fylgi en með 10 prósentustiga forskot á næsta frambjóðenda, þarf að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem hlutskarpastir verða í kosningunum í dag. Komi til þessa fer önnur umferð kosninganna fram þann 29. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×