Atvinnulíf

83 ára í nýsköpun

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hinn 83 ára gamli Han van Doorn hefur þróað tækni sem fylgist með því hvort eldri borgarar eru að nota heimilistækin sín venjum samkvæmt og lætur vita í gegnum síma hvort eitthvað virðist óvenjulegt.
Hinn 83 ára gamli Han van Doorn hefur þróað tækni sem fylgist með því hvort eldri borgarar eru að nota heimilistækin sín venjum samkvæmt og lætur vita í gegnum síma hvort eitthvað virðist óvenjulegt. Vísir/Getty

Han van Doorn er 83 ára gamall Hollendingur sem stofnaði nýsköpunarfyrirtækið AreYouOkayToday fyrir fjórum árum síðan. Varan sem fyrirtækið er að þróa er lítið stykki sem tengt er við heimilistæki eins og kaffivél eða tölvu. Þessi tenging sendir gögn í app sem staðsett er í síma notandans. Ef eitthvað virðist ekki venjum samkvæmt, sendir appið boð út með því að hringja í notandann. Til dæmis ef kaffivél er ekki notuð að morgni eins og venja er. Notandinn svarar símtalinu og staðfestir að allt sé í lagi. Ef notandinn gerir það ekki, er sjálfkrafa hringt í aðstandanda eða uppgefið  númer hjá heilbrigðisþjónustu eða sjúkrastofnun. Markmiðið er að auka á öryggi eldri borgara sem búa heima.

Hugmyndina að AreYouOkayToday fékk van Doorn eftir að eiginkonan hans lést. Hún hafði þá glímt við alvarleg vitglöp í fimm ár. Vitglöpin leiddu til þess að smátt og smátt versnaði minnið og almenn hæfni hennar til að takast á við lífið og tilveruna. Segir van Doorn þau ófá skiptin þar sem afleiðing sjúkdómsins ollu því að hún ýmist gerði einhver mistök eða hreinlega meiddi sig. Að sögn van Doorn getur hann ekki ímyndað sér hvernig þetta hefði verið ef hann sjálfur hefði ekki fylgst með henni öllum stundum.

Því oft kemur eitthvað fyrir eldri borgara án þess að nokkur átti sig á því strax. Sjálfur lenti van Doorn t.d. í því að koma að látinni mágkonu sinni, þremur dögum eftir að hún lést. 

Ýmsar vörur og lausnir er verið að þróa hjá nýsköpunarfyrirtækjum um allan heim, þar sem leitast er við að fylgjast með heilsu og líðan eldri borgara sem búa heima. Van Doorn segist hins vegar sjálfur ekki hafa áhuga á að ganga um með öryggishnapp, armband eða setja upp myndavélar út um allt heima hjá sér svo hægt sé að fylgjast með honum. Að hans sögn felst sérstaða lausnarinnar hjá AreYouOkayToday í að friðhelgi einkalífs eldri borgara er meira í hávegum höfð en hjá mörgum öðrum nýsköpunaraðilum.

Han van Doorn sést hér til vinstri á mynd taka við nýsköpunarverðlaunum Start-up Plus Program hjá EGON.

Markaðurinn fyrir vörur sem þessar er talinn stækka hratt. Ekki aðeins er meðalaldur fólks að hækka heldur er öll nútímavæðing í tækni orðin það hröð að t.d. samtenging tækja og notkun á öppum þykir ekki tiltökumál í dag. Sjálfur starfaði van Doorn hjá IBM í þrjátíu ár og því hefur hann tæknilegan bakgrunn. Hann segist hins vegar nýgræðingur í því að reka sitt eigið fyrirtæki.

Að sögn van Doorn hefur aldurinn alls ekki verið honum til trafala þau fjögur ár sem hann hefur unnið að hugmynd sinni og þróun. Þvert á móti segir hann aldurinn staðfesta það fyrir öðrum að hann viti upp á hár um hvað hann er að tala. 

Þá segir van Doorn fólk á hans aldri oftast nær fjárhagslega sjálfstætt og geti því gert hluti án þess að vera upp á aðra kominn. Van Doorn hefur því ekki þurft að leita til fjárfesta heldur hefur hann nýtt sitt eigið sparifé og ellilífeyri til að þróa hugmyndina. 

Í viðtali við Sifted segir van Doorn að ætlunin sé að hefja framleiðslu fyrir alvöru árið 2021.


Tengdar fréttir

Aldur viðskiptavina hækkar hratt í kjölfar Covid

Elstu nýju viðskiptavinirnir eru á níræðisaldri segir Guðmundur Magnason framkvæmdastjóri Heimkaup.is meðal annars um þá þróun að í kjölfar kórónufaraldurs hefur meðalaldur netverslunarinnar hækkað hratt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×