Innlent

Engin heimild til að sekta skip sem koma í höfn og upp­fylla ekki al­þjóð­lega staðla

Atli Ísleifsson skrifar
Grindavíkurhöfn. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Grindavíkurhöfn. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld brjóta gegn reglum EES en sektarheimild skortir til að beita gegn skipum sem koma í höfn á Íslandi og uppfylla ekki alþjóðlega staðla.

Þetta kemur fram í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem sent hefur verið íslenskum stjórnvöldum varðandi skort á lagalegum heimildum til beitingar á sektum gagnvart skipum sem koma í íslenskar hafnir án þess að uppfylla viðeigandi kröfur.

Í tilkynningu frá ESA segir að í álitinu komist ESA að þeirri niðurstöðu að íslensk lög heimili ekki að viðurlögum sé beitt við öllum brotum skipa á alþjóðlegum stöðlum í höfnum innan EES.

„Íslensk stjórnvöld geta ekki beitt stjórnvaldssektum samkvæmt núverandi viðurlagakerfi landsins, þar sem slíkar sektir falla ekki undir lög um eftirlit með skipum á Íslandi.

Frá árinu 2017 hefur Ísland upplýst ESA að lagabreyting væri nauðsynleg til að íslensk stjórnvöld gætu beitt stjórnvaldssektum á rekstraraðila skipa sem ekki uppfylla ákveðnar kröfur settar fram í tilskipun um hafnarríkiseftirlit. Enn hefur slík lagabreyting ekki verið samþykkt.

Þess vegna gaf ESA út rökstutt álit í dag sem er annað skrefið í meðferð samningsbrotamáls. Íslensk stjórnvöld fá nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að því loknu getur ESA ákveðið hvort vísa eigi málinu til EFTA dómstólsins,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×