Fótbolti

Joaquín Correa hetja Argentínu á vellinum sem Messi ældi á um árið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi fagnar með hetju kvöldsins.
Lionel Messi fagnar með hetju kvöldsins. Juan Karita-Pool/Getty Images

Varamaðurinn Joaquín Correa reyndist hetja Argentínumanna er liðið heimsótti Bólivíu í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið árið 2022. Hinn 26 ára gamli framherji skoraði sigurmarkið í 2-1 sigir á 79. mínútu leiksins.

Marcelo Moreno kom heimamönnum yfir á 24. mínútu en þeir eru einkar erfiðir heim að sækja. Spilar Bólivía heimaleiki sína á Estadio Hernando Siles-vellinum í La Paz. Völlurinn er 3637 metra yfir sjávarmáli og loftið því verulega þunnt. Lionel Messi ældi á vellinum árið 2013 og árið 2017 sagði Neymar að það væri ómannúðlegt að spila við aðstæður sem þessar.

Lautaro Martinez jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1-1 er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Engin ældi í kvöld en leikmenn Argentínu áttu í stökustu vandræðum með að brjóta heimamenn á bak aftur. Það var svo á 79. mínútu sem Martinez lagði upp sigurmark leiksins er Correa tryggði Argentínu stigin þrjú.

Lokatölur 2-1 og Argentína því unnið báða leiki sína til þessa. Á sama tíma hefur Bólivía tapað báðum sínum en liðið mátti þola 5-0 tap gegn Brasilíu í fyrstu umferð undankeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×