Erlent

Morðingi bandarískrar vísindakonu í lífstíðarfangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ioannis Paraskakis í haldi lögreglunnar á Krít í fyrra.
Ioannis Paraskakis í haldi lögreglunnar á Krít í fyrra. Vísir/EPA

Grískur dómstóll dæmdi karlmann á þrítugsaldri í lífstíðarfangelsi fyrir að nauðga og myrða bandaríska vísindakonu á eyjunni Krít í fyrra. Lík konunnar fannst um viku eftir að hún hvarf þegar hún fór út að skokka.

Suzanne Eaton, sameindalíffræðingur við Max Planck-stofnunina í Þýskalandi, fannst látin í yfirgefnu skotbyrgi á Krít í júlí í fyrra. Hún var sextug og var á Krít til að vera viðstödd vísindaráðstefnu.

Ioannis Paraskakis, tuttugu og átta ára gamall Krítverji, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir manndráp, þrettán ára fangelsi fyrir nauðgun og fjögurra mánaða fangelsi fyrir ólöglega vopnaeign í Chania á Krít í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Maðurinn, sem var ákærður fyrir að aka á konuna og draga hana á annað svæði þar sem hann nauðgaði henni, játaði upphaflega að hafa ráðið Eaton bana. Hann hélt því síðar fram að lögreglan hefði knúið fram játninguna og að um slys hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×