Fótbolti

Enginn af Íslandsförunum má spila með U21 ára liði Ítala annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Bollini, þjálfari 20 ára landsliðsins, var kallaður út ásamt strákunum sínum til að redda málunum fyrir U21 árs landsliðið.
Alberto Bollini, þjálfari 20 ára landsliðsins, var kallaður út ásamt strákunum sínum til að redda málunum fyrir U21 árs landsliðið. Getty/Emilio Andreoli

Ítalska knattspyrnusambandið hefur tekið þá ákvörðun að tefla fram undir tuttugu ára liði sínu í stað 21 árs landsliðsins í undankeppni EM

Ítalir eru í riðli með Íslandi og mættu til Íslands fyrir helgi. Það þurfti hins vegar að fresta leiknum þar sem það kom upp kórónuveirusmit innan ítalska liðsins. Tveir leikmaður og einn starfsmaður voru með kórónuveiruna við skimun í Leifsstöð.

Næsti leikur Ítala er á morgun á móti Írum og sá leikur fer fram annað kvöld. Ítalir mega aftur á móti ekki spila leikmönnunum sem komu til Íslands.

Það er mikil spenna í riðlinum en íslenska liðið mætir Lúxemborg annað kvöld. Írar eru með 16 stig í efsta sæti riðilsins, þremur stigum meira en Ítalir og fjórum stigum meira en Svíþjóð og Ísland. Ítalía og Ísland hafa hins vegar leikið leik færra.

Írski landsliðsþjálfarinn Jim Crawford sagði í viðtali við Independent að hann vissi í raun ekkert um hvaða leikmenn myndu spila fyrir Ítalíu í leiknum annað kvöld.

Ítalska knattspyrnusambandið gaf þó frá sér þá yfirlýsingu að það hefði tekið þá ákvörðun að tefla fram U-20 ára liðinu og nýju þjálfarateymi í leiknum til að gæta fyllsta öryggis og geta fylgt sóttvarnarreglum.

Alberto Bollini er þjálfari tuttugu ára landsliðsins og hefur verið með liðið í æfingabúðum í Flórens síðan 7. október. Liðið er búið að fara í tvö kórónveirupróf síðan og allir hafa verið neikvæðir.

Ítalska sambandið hefur þó lagt inn beiðnir að fjórir leikmenn U-21 árs liðsins, Patrick Cutrone, Samuele Ricci, Riccardo Sottil og Sandro Tonali, fái leyfi til þess að spila leikinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×