Erlent

Bretar kalla sendi­herra sinn heim frá Hvíta-Rúss­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dominic Raab er utanríkisráðherra Bretlands.
Dominic Raab er utanríkisráðherra Bretlands. EPA/WILL OLIVER

Bretland hefur kallað sendiherra sinn í Hvíta-Rússlandi tímabundið til baka vegna þess pólitíska óróa sem nú gætir í síðarnefnda landinu.

Mótmælaalda hefur riðið yfir Hvíta-Rússland frá því að Alexander Lúkasjenkó, sem gegnt hefur embætti forseta landsins síðan árið 1994, lýsti yfir sigri í afar umdeildum forsetakosningum í ágúst síðastliðnum. Hefur hann verið sakaður um kosningasvindl, en hann ítrekað neitað. Þá hefur hann sagt andstæðinga sína vera „strengjabrúður Vesturlanda.“

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, segir ákvörðunina um að kalla sendiherrann til baka hafa verið tekna til þess að sýna samstöðu með Póllandi og Litáen. Stjórnvöld þessara ríkja hafa gagnrýnt Lúkasjenkó. Hann hefur svarað með því að vísa 35 erindrekum frá löndunum tveimur úr landi.

Þá ákvörðun forsetans hefur Raab utanríkisráðherra sagt vera „algjörlega óréttlætanlega“ og að hún væri til þess fallin að einangra hvítrússnesku þjóðina enn frekar. Því hafi verið ákveðið að kalla sendiherra Bretlands við Hvíta-Rússland, Jacqueline Perkins, til heimalandsins.

Sjö önnur Evrópuríki hafa kallað sendiherra sína heim frá Hvíta-Rússlandi vegna stöðunnar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×