Fótbolti

Hætti fyrir fjórum árum en þurfti að vera á bekknum eftir að þrír markverðir greindust með veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oleksandr Shovkovskiy er leikjahæsti leikmaður í sögu Dynamo Kiev.
Oleksandr Shovkovskiy er leikjahæsti leikmaður í sögu Dynamo Kiev. getty/Matthew Ashton

Oleksandr Shovkovskiy var varamarkvörður úkraínska landsliðsins í vináttulandsleiknum gegn heimsmeisturum Frakklands í gær. Það er ekki í frásögur færandi nema hvað Shovkovskiy er 45 ára og hætti í fótbolta fyrir fjórum árum.

Það kom ekki til af góðu að Shovkovskiy þurfti að vera á bekknum í gær. Þrír af fjórum markvörðum í úkraínska hópnum greindust nefnilega með kórónuveiruna.

Heorhiy Bushchan er eini leikfæri markvörðurinn í hópnum og lék sinn fyrsta landsleik í gær. Það var þó engin draumafrumraun því Úkraína tapaði 7-1. Þetta er stærsta tap úkraínska landsliðsins frá upphafi.

Shovkovskiy, sem er aðstoðarþjálfari úkraínska liðsins, var til taks á bekknum í gær. Hann er fyrrverandi markvörður og lék 92 landsleiki á árunum 1994-2012. Shovkovskiy lék með Dynamo Kiev allan sinn feril og er leikjahæstur í sögu félagsins.

Shovkovskiy lagði hanskana á hilluna 2016. Frá 2018 hefur hann verið einn af aðstoðarmönnum Andriys Shevchenko með úkraínska landsliðið.

Shovkovskiy stóð m.a. milli stanganna hjá úkraínska landsliðinu þegar það mætti því íslenska í undankeppni EM 2000. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í Kænugarði en Úkraína vann 0-1 sigur á Laugardalsvellinum.

Úkraínumenn eru komnir á EM sem fer fram víðs vegar um Evrópu næsta sumar. Úkraína vann sinn riðil í undankeppni EM.

Sigurður Helgason birti skemmtilega mynd af Shovkovskiy fyrir leik Dynamo Kiev og KR á móti í Skotlandi fyrir allmörgum árum síðan. Með honum á myndinni er KR-ingurinn Nökkvi Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×