Viðskipti innlent

Icelandair selur þrjár þotur fyrir 2,9 milljarða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð.
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð. Vísir/Vilhelm

Icelandair hefur náð samkomulagi um sölu á þremur Boeing 757-200 flugvélum félagsins fyrir alls um 2,9 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu nú á ellefta tímanum.

Þar segir jafnframt að stefnt sé að því að ganga endanlega frá samningum um söluna á næstu vikum. Tvær vélanna voru framleiddar árið 1994 og ein árið 2000. Eftir afhendingu verður vélunum breytt úr farþegaflugvélum yfir í fraktvélar. Ekki kemur fram í tilkynningu hver kaupandi vélanna er.

Salan er í samræmi við áætlun Icelandair um að fækka Boeing 757 vélum í flugflota félagsins á næstu árum. Söluverð flugvélanna þriggja er um 21 milljón Bandaríkjadala, eða um 2,9 milljarðar króna á núverandi gengi, líkt og áður segir. Fram kemur í tilkynningu að þetta sé á bilinu tvær til þrjár milljónir dala yfir bókfærðu virði flugvélanna.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningu að salan sé jákvætt skref fyrir félagið nú þegar flugrekstur sé í lágmarki. Sala vélanna sýni að enn felist mikil verðmæti í Boeing-757 vélum Icelandair. 

„Þrátt fyrir sölu þriggja véla býr félagið enn yfir öflugum flugflota sem mun nýtast vel þegar ferðatakmörkunum verður aflétt og eftirspurn eftir flugi eykst á ný.“


Tengdar fréttir

Icelandair kallar eftir fyrirsjánleika vegna næsta árs

Forstjóri Icelandair segir erfitt fyrir ferðaþjónustuna almennt að hafa ekki fyrirsjáanleika varðandi fyrirkomulag á landamærum vegna sölu ferða til Íslands á næsta ári. Forsætisráðherra segir margar leiðir til skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×