Viðskipti innlent

312 fyrirtæki fengið ríkisstuðning vegna uppsagna starfsfólks

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fjármálaráðuneytið
Fjármálaráðuneytið Vísir/Vilhelm

Ríkissjóður hefur greitt tæpa 9,4 milljarða króna vegna launakostnaðar starfsmanna á uppsagnafresti hjá 312 fyrirtækjum. Stuðningurinn hækkar um 1,4 milljarða milli mánaða og 40 fyrirtæki bætast við.

Upplýsingarnar koma fram hjá Ríkisskattstjóra en hann birtir aðeins fjölda launamanna í þeim tilvikum þar sem 20 eða fleiri eru á uppsagnafresti hjá fyrirtæki. 

Af 312 fyrirtækjum eru 63 sem hafa 20 eða fleiri á uppsagnafresti en alls eru það tæplega 6.000 starfsmenn. Ekki kemur fram hver fjöldi starfsmanna á uppsagnafresti er hjá 249 fyrirtækjum. Langflest fyrirtækin tengjast ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.

Icelandair hefur fengið langmesta stuðninginn eða tæpa 3 milljarða króna vegna um 1900 starfsmanna. Bláa lónið kemur næst með 570 milljónir króna vegna 545 starfsmanna. Flugleiðahótel eru með þriðja stærsta stuðninginn með 562 milljónir króna vegna 480 starfsmanna og um 470 starfsmenn Íslandshótels hafa fengið um 560 milljónir í uppsagnastyrki. Miðbæjarhótel eru svo með fimmta hæsta styrkinn eða um 243 milljónir króna vegna 226 starfsmanna.

Ef rýnt er í listann af handahófi sést að Hópferðafyrirtækið Allra handa eða Grey Line hefur fengið 184 milljónir króna. Rammagerðin hefur fengið 44,7 milljónir króna. Upplifunarfyrirtækið Sena hefur fengið 33,6 milljónir króna. Fyrirtækið Joe Iceland eða Joe and the Juice 12 milljónir og Bæklingadreifing eina milljón króna.

Í lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar fyrirtækja á uppsagnafresti starfsfólks sem tóku gildi í júní á þessu ári kemur fram að stuðningur ríkisins geti að hámarki verið 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnafresti þó að hámarki 633.000 á mánuði. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×