Íslenski boltinn

Tryggvi bætist í hóp Skagamanna hjá Lillestrøm

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi Hrafn Haraldsson er markahæsti Íslendingurinn í Pepsi Max-deild karla.
Tryggvi Hrafn Haraldsson er markahæsti Íslendingurinn í Pepsi Max-deild karla. vísir/bára

Tryggvi Hrafn Haraldsson er genginn í raðir Lillestrøm út þetta tímabil. Skagamaðurinn kom til Noregs í gær og verður í sóttkví fram á föstudag.

Hjá Lillestrøm hittir hann fyrir sveitunga sína, Björn Bergmann Sigurðarson og Arnór Smárason.

Í samtali við heimasíðu Lillestrøm sagði Tryggvi að Arnór hefði hjálpað til við að sannfæra hann um að fara til Lillestrøm sem er í 4. sæti norsku B-deildarinnar með 35 stig, fjórum stigum frá 2. sætinu.

Í gær seldi ÍA Stefán Teit Þórðarson til Silkeborg í Danmörku. Þeir Tryggvi skoruðu samtals 20 mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar. Tryggvi skoraði tólf mörk og Stefán Teitur átta.

Án þeirra Tryggva og Stefáns Teits tapaði ÍA 0-4 fyrir FH í gær. Liðið er í 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Þetta er í annað sinn sem hinn 24 ára Tryggvi reynir fyrir sér í atvinnumennsku. Hann lék með Halmstad í Svíþjóð á árunum 2017-18. Tryggvi hefur leikið fjóra A-landsleiki og skorað eitt mark.

Tryggvi semur við Lillestrøm út þetta tímabil með möguleika á framlengingu ef vel gengur. Á heimasíðu Lillestrøm segir að félagið hafi tvisvar sinnum áður reynt að fá Tryggva, þegar hann fór til Halmstad og svo aftur þegar hann fór frá Svíþjóð. Norska félagið fékk hann svo loks í þriðju tilraun.


Tengdar fréttir

Stefán Teitur á leið til Danmerkur

Stefán Teitur Þórðarson, einn besti leikmaður Pepsi Max deildarinnar í knattspyrnu, mun spila í Danmörku frá og með næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×