Fótbolti

Fyrirliði armenska landsliðsins tekur herþjónustu fram yfir fótboltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Varazdat Haroyan skoraðist ekki undan og gekk í armenska herinn.
Varazdat Haroyan skoraðist ekki undan og gekk í armenska herinn. getty/TF-Images

Ekkert verður af félagaskiptum armenska landsliðsmannsins Varazdat Haroyan til AEL Larissa í Grikklandi, allavega í bili. Ástæðan er nokkuð sérstök en Haroyan er genginn í armenska herinn. Armenía á í átökum við Aserbaídsjan um héraðið Nagorno-Karabakh.

Allir armenskir karlmenn undir fertugu voru beðnir um að bjóða sig fram til herþjónustu og Haroyan svaraði kallinu, jafnvel þótt það þýddi að félagaskiptin til Larissa dyttu upp fyrir.

Umboðsmaður Haroyans sendi eiganda Larissa skilaboð fyrr í vikunni þar sem hann tilkynnti honum að Haroyan væri genginn í herinn og væri þegar kominn á átakasvæðið.

Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi deilt um Nagorno-Karabakh. Átök brutust út í síðustu viku og yfir 100 manns hafa nú látist.

Hinn 28 ára Haroyan hefur leikið 51 landsleik. Hann hefur verið fyrirliði Armeníu í fjarveru Henrikhs Mkhitaryan sem hefur ekki leikið með armenska landsliðinu síðan í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×