Viðskipti innlent

32 ára saga Ís­lensku aug­lýsinga­stofunnar á enda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hjalti Jónsson er framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar.
Hjalti Jónsson er framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar.

Stjórn Íslensku auglýsingastofunnar, einnar rótgrónustu auglýsingastofu landsins, hefur óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í tilkynningu frá stofunni segir að undanfarnir mánuðir og misseri hafi reynst erfiðir. Félagið hafi um síðustu áramót lokið samstarfi við Icelandair sem hafðu um áratugaskeið verið stærsti viðskiptavinur stofunnar.

Þá hafi áhrif kórónuveirufaraldursins haft sitt að segja með því að auka samdrátt á verkefnum stofunnar, og ekki sjái fyrir endann á áhrifum veirunnar.

„Viðræður um endurskoðun á leigusamningi með hliðsjón af breyttum rekstrarforsendum hafa því miður ekki borið viðunandi árangur,“ segir í tilkynningunni.

Reynt hafi verið að hagræða í rekstri en ekki hafi tekist að afla nægjanlegra nýrra verkefna til þess að mæta tekjufalli undanfarinna missera.

„Að vel ígrunduðu máli hafa eigendur félagsins því tekið þá þungbæru en um leið óhjákvæmilegu ákvörðun að láta hér staðar numið. Stjórn Íslensku auglýsingastofunnar ákvað því í dag að óska eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta frekar en að halda áfram taprekstri með tilheyrandi skuldasöfnun næstu mánuði og mögulega misseri.“

Íslenska auglýsingastofan hefur verið starfrækt í 32 ár og hefur unnið til fjölda verðlauna á íslenskum auglýsingamarkaði. Stofan mun að óbreyttu hætta starfsemi nú um mánaðarmótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×