Sport

Liðslæknirinn stakk gat á lunga lykilleikmanns rétt fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyrod Taylor hefur mikla reynslu úr NFL-deildinni enda búinn að spila í henni í níu ár. Hann hefur því séð margt en þó varla það að mistök læknis komi í veg fyrir það að hann spili.
Tyrod Taylor hefur mikla reynslu úr NFL-deildinni enda búinn að spila í henni í níu ár. Hann hefur því séð margt en þó varla það að mistök læknis komi í veg fyrir það að hann spili. Getty/ Harry How

NFL-liðið Los Angeles Chargers varð að skipta út leikstjórnenda sínum rétt fyrir leik um helgina eftir að liðslæknir þess gerði stór mistök í aðdraganda leiksins.

Reynsluboltinn Tyrod Taylor átti að byrja leikinn eins og í fyrsta umferðinni. Tyrod Taylor hafði hins vegar fengið högg á brjóstkassann og þurfti því meðferð fyrir leikinn. Hann átti alltaf að spila en þurfti smá deyfingu.

Liðslæknir Los Angeles Chargers fékk það verðuga verkefni að sprauta Tyrod Taylor með deyfilyfi í rifbeinin stuttu fyrir leik. Honum tókst það ekki betur úr hendi en að hann stakk gat á lunga Tyrod Taylor.

Tyrod Taylor átti í kjölfarið erfitt með andardrátt og var á endanum fluttur á sjúkrahús. Hann gat því skiljanlega ekki spilað leikinn.

Nýliðinn Justin Herbert fékk tækifærið í staðinn og spilaði mjög vel á móti meisturum Kansas City Chiefs. Chiefs liðið vann að lokum endurkomusigur en Herbert fékk mikið hrós.

Tyrod Taylor var ekki í lífshættu og þetta ógnar heldur ekki ferli hans. Frammistaða Justin Herbert gæti hins vegar séð til þess að hann fái ekki að spila þegar hann er búinn að ná sér.

Anthony Lynn, þjálfari Los Angeles Chargers, vildi ekki gera stórmál úr þessu. „Hann gerði bara mistök,“ sagði Lynn um læknirinn og bætti við: Svona gerist stundum. Tyrod er ekki reiður eða ósáttur,“ sagði Anthony Lynn við ESPN.

Leikmannasamtökin ætla að rannsaka málið og hafa verið í sambandið við Tyrod Taylor sjálfan og umboðsmanninn hans síðan á sunnudaginn.

Margir þjálfarar í NFL-deildinni eru á því að leikmenn eigi ekki að missa sæti sitt í byrjunarliði vegna meiðsla ekki síst þegar þau koma til vegna mistaka læknis liðsins. Haldi Justin Herbert áfram að spila svona vel gæti hins vegar orðið erfitt að taka hann úr byrjunarliðinu.

Læknar hafa ráðlagt Tyrod Taylor að spila ekki fótbolta á næstunni. Anthony Lynn segir hins vegar að hann sé aðalleikstjórnandi Los Angeles Chargers liðsins um leið og hann er hundrað prósent heill.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×