Viðskipti innlent

Matarverð hækkar umtalsvert

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Verð á eplum hefur hækkað um þrjátíu prósent.
Verð á eplum hefur hækkað um þrjátíu prósent. Vísir/stefán

Matarverð hefur hækkað mun meira en almennt verðlag á þessu ári og hefur verð á eplum til að mynda hækkað um þrjátíu prósent. Hagfræðingur segir veikingu krónunnar skila sér strax út í verð á matvælum.

Hin dæmigerða matarkarfa, líkt og hún er mæld í vísitölu neysluverðs, hefur hækkað um 6,3 prósent á árinu. Þetta er gríðarleg breyting á milli ára en til samanburðar hækkaði hún einungis um 1,1 prósent í fyrra þegar krónan var nokkuð stöðug.

Þetta er einnig mun meiri hækkun en almennu verðlagi, sem mælist um tvö og hálft prósent frá áramótum. Magnús Stefánsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir þróunina skýrast af genginu og veikingu krónunnar á árinu.

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að gengisáhrif koma hraðar og af meiri þunga inn í verð á matvælum en inn í verð á öðru. Til dæmis vegna þess að veltuhraðinn er meiri í mat og drykkjarvörum og síðan er hlutfall innkaupaverðs hátt,“ segir Magnús.

Stærstu útgjaldaliðirnir í þessari tilteknu matarkörfu eru kjöt, mjólk, ostar og egg og síðan kornvörur. Þar sem verð á matvörum hefur hækkað mismikið hefur samsetningin því vitanlega mikil áhrif á heildarreikninginn.

Búast má við breyttum kaupvenjum samhliða óvenju mikilli verðhækkun á sumum matvörum.Mynd/ Vilhelm.

Verðhækkunin á ýmsu grænmeti og ávöxtum er umtalsverð. Í nýrri Hagsjá Landsbankans kemur fram að verð á sveppum og lauk hefur til að mynda hækkað um fimmtán prósent, verð á kartöflum um ríflega tuttugu og þrjú prósent en verð á eplum hefur rokið upp um ríflega þrjátíu prósent. Magnús segir ómögulegt að segja hvers vegna eplaverð hefur snarhækkað.

Búast megi við breyttum kaupvenjum samhliða þessu.

„Þegar verð á eplum hækkar um þrjátíu prósent er fólk líklegra til að kaupa banana í staðinn en það er ekki tekið tillit til þessarar breyttu hegðunar í vísitölu neysluverðs. Þannig að þó að verðlag hafi hækkað um ríflega sex prósent er ég ekki viss um að matarreikningurinn hafi hækkað jafn mikið,“ segir Magnús.

Hann telur erfitt að spá fyrir um verðþróunina, það fari eftir genginu.

„Við birtum alltaf mánaðrspár um hvað við teljum að gerist milli mánaða og það er búið að gerast núna fimm mánuði í röð að vísitala neysluverðs hækkar meira en við áttum von á. Þannig það er eitthvað í gangi," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×