Innlent

Hlaut ban­væna á­verka eftir að hafa verið með bíl­beltið undir handar­krika

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Borgarfirði. Myndin er úr safni.
Úr Borgarfirði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Farþegi jepplings sem lést í árekstri á Borgarfjarðarbraut á síðasta ári var með bílbeltið ranglega spennt. Hafði hann sett axlarbeltið undir handarkrikann og í árekstrinum hlotið banvæna brjóst- og kviðarholsáverka.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, en slysið átti sér stað rétt austan við Seleyrará um að fyrir hádegi þann 15. september 2019. Talið er að öflug vindhviða hafi orðið til þess að ökumaður jepplingsins missti stjórn á bílnum og fór yfir á rangan vegarhelming. Kom þá annar bíll úr gagnstæðri átt þannig að þeir rákust saman.

Hefði lifað slysið af

Í skýrslunni segir að nefndin telji líkur á að farþegi jepplingsins, sem sat aftur í vinstra megin, hefði lifað slysið af hefði öryggisbeltið verið spennt með réttum hætti. 

Annar farþegi, sem einnig sat aftur í, var ekki með bílbeltið spennt, kastaðist fram á sætisbakið fyrir fram og hlaut áverka á efri hluta líkamans. Ökumaðurinn var hins vegar spenntur í öryggisbelti, loftpúðinn blés út og hlaut sá ekki mikla áverka.

Þá segir að ökumaður hins bílsins hafi verið spenntur í öryggisbelti og loftpúðinn blásið út. Hann hafi hins vegar hlotið mikla áverka í slysinu, en eins og segir í skýrslunni þá varð talsverð aflögun í ökumannsrými bifreiðarinnar vegna áreksturins sem skýrir að hluta áverkana.

Ennfremur segir að ökumaður jepplingsins hafi haft litla reynslu af akstri á Íslandi og þótt erfitt að aka við þær aðstæður sem þá voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×