Fótbolti

Arnór Ingvi á skotskónum er Malmö fór áfram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi (í miðjunni) fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa tryggt sigur kvöldsins.
Arnór Ingvi (í miðjunni) fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa tryggt sigur kvöldsins. Vísir/Malmö

Arnar Ingvi Traustason var á skotskónum er sænska liðið Malmö komst áfram í undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Axel Óskar Óskarsson, Jón Dagur Þorsteinsson og Willum Þór Willumsson máttu allir þola tap og eru úr leik.

Arnór Ingvi hóf leikinn gegn Budapest Honvéd á varamannabekknum en nýtti heldur betur þær mínútur sem hann fékk. Ola Toivonen hafði komið Malmö yfir undir lok fyrri hálfleiks og var staðan enn 1-0 Malmö í vil þegar Arnór Ingvi kom inn af bekknum á 79. mínútu leiksins.

Aðeins sjö mínútum síðar skoraði Arnór og gulltryggði þar með sigur Malmö sem og farseðilinn í næstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar.

Miðvörðurinn Axel Óskar Óskarsson var í byrjunarliði norska liðsins Viking FK sem mátti þola 2-0 tap gegn Aberdeen á heimavelli. Axel Óskar var tekinn af velli þegar tæpt korter var til leiksloka og Viking reyndi að sækja jöfnunarmark.

Það gekk ekki betur en svo að Skotarnir skoruðu tveimur mínútum síðar og tryggðu sér 0-2 útisigur.

Axel Óskar var ekki eini Íslendingurinn sem átti erfitt uppdráttar í dag. Jón Dag­ur Þor­steins­son var í byrjunarliði danska liðsins AGF sem sótti Mura heim til Slóveníu. Jón Dagur var í byrjunarliði AGF og lék 75 mínútur í 3-0 tapi. Þá lék Will­um Þór Will­umsson all­an leik­inn með BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi sem tapaði 2-0 fyr­ir CSKA Sofia í Búlgaríu.


Tengdar fréttir

Rúnar úr leik og Ísland færist enn neðar

Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana eru úr leik í Evrópudeildinni í fótbolta eftir tap á heimavelli gegn Buducnost frá Svartfjallalandi, 1-0. Tapið gerir íslenskum félagsliðum erfitt fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×