Enski boltinn

Íslandsvinirnir koma til greina sem Gulldrengur Evrópu 2020

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslandsheimsókn Phils Foden og Masons Greenwood fyrr í þessum mánuði var eftirminnileg fyrir margra hluta sakir.
Íslandsheimsókn Phils Foden og Masons Greenwood fyrr í þessum mánuði var eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. GETTY/MIKE EGERTON

Ensku landsliðsmennrnir Mason Greenwood og Phil Foden eru meðal þeirra 40 sem eru tilnefndir sem Gulldrengur Evrópu. Þessi verðlaun eru veitt þeim unga leikmanni sem hefur leikið best á hverju almanaksári. Miðað er við leikmenn sem eru 21 árs og yngri.

Greenwood og Foden léku sinn fyrsta A-landsleik þegar England sigraði Ísland, 0-1, í Þjóðadeildinni um þarsíðustu helgi. 

Þeir komu sér svo í mikið klandur þegar þeir buðu tveimur íslenskum stelpum upp á hótel til sín eftir leikinn. Með því brutu þeir sóttvarnarreglur og var í kjölfarið sparkað út úr enska landsliðshópnum.

Erling Håland þykir hvað líklegastur til að verða valinn Gulldrengur Evrópu en hann hefur raðað inn mörkum fyrir Borussia Dortmund á árinu og þá skoraði hann sín fyrstu mörk fyrir norska A-landsliðið fyrr í þessum mánuði.

Meðal annarra leikmanna sem eru tilnefndir til þessara verðlauna má nefna Alphonso Davies, Jadon Sancho og Ansu Fati. 

Davies var í lykilhlutverki hjá Bayern München sem vann þrefalt, Sancho hélt áfram að gera góða hluti með Dortmund og er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu og Fati, sem leikur með Barcelona, varð á dögunum yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir spænska A-landsliðið.

Listann yfir þá leikmenn sem eru tilnefndir sem Gulldrengur Evrópu má sjá hér fyrir neðan.

Meðal leikmanna sem hafa unnið til þessara verðlauna, sem voru fyrst veitt 2003, eru Lionel Messi, Sergio Agüero, Wayne Rooney, Raheem Sterling, Paul Pogba og Kylian Mbappé. Portúgalinn Joao Félix var valinn Gulldrengur Evrópu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×