Sport

Biles vill að fimleikasamband Bandaríkjanna geri hið rétta í stöðunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrátt fyrir ungan aldur er Biles ein sigursælasta fimleikastjarna sögunnar.
Þrátt fyrir ungan aldur er Biles ein sigursælasta fimleikastjarna sögunnar. Pat Scaasi/Getty Images

Simone Biles, ein merkasta fimleikastjarna allra tíma, sendi bandaríska fimleikasambandinu kaldar kveðjur. Hún vill að sambandið rannsaki kynferðisbrot Larry Nassars, fyrrum læknis hjá sambandinu.

Samskipti hennar og sambandsins komu til með því að fimleikasambandið óskaði henni til hamingju með 23 ára afmælið. Eftir að hafa hrósað henni í hástert þá var svar Biles við færslunni töluvert kaldara.

„Hvernig væri að þið mynduð vekja undrun mína og gera það sem er rétt ... gera sjálfstæða rannsókn.“

Biles er þar með að vitna í mál Larry Nassars, eins skæðasta kynferðisbrotamann síðari ára. Alls ku Nasser hafabrotið á 150 fimleikakonum síðustu 20 ár. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum árið 2017 og fyrir að hafa misnotað börn.

Fimleikasamband Bandaríkjanna hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að hafa aldrei látið framkvæma sjálfstæða rannsókn á brotum Nassars. Í staðinn sættist það á að greiða fórnarlömbum hans samtals 215 milljónir bandaríkjadala.

Sambandið var lýst gjaldþrota seinnihluta árs 2018 vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×