Handbolti

Halldór Jóhann: Alvöru strákar, aldir upp á mjólk og skyri

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon tók við Selfossi í sumar.
Halldór Jóhann Sigfússon tók við Selfossi í sumar. mynd/selfoss

„Ég er mjög ánægður með það hvernig við kláruðum seinni hálfleikinn. Við vorum klaufar og töpum aulalega boltum í yfirtölu í upphafi síðari hálfleiks en síðan náðum við frumkvæðinu í leiknum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, eftir fyrsta leik sinn sem þjálfari liðsins í Olís-deildinni.

Halldór hrósaði Stjörnuliðinni sem spilaði frábæran handbolta í dag og viðurkenndi að sigurinn gat dottið báðu megin í kvöld. Hann sagði að bæði lið hefðu gefið allt í leikinn sem endaði þó með sigri Selfoss, 27-26.

„Við hefðum getað klárað þetta með tveimur í lokin, það hefði vissulega verið þægilegra en Hergeir stelur svo boltanum, ekki í fyrsta skiptið sem hann gerir það,“ sagði Dóri sem hrósaði einnig liðsheildinni hjá sínum strákum.

Halldór Jóhann tók við Selfoss liðinu eftir síðasta tímabil og fær núna að kynnast liðsheildinni, handbolta samfélaginu og Selfoss liðinu sem gefst aldrei upp. Hann hrósar sínum strákum og er tilbúinn í þennan slag með þeim í vetur

„Þetta eru alvöru strákar, aldir upp á mjólk og skyri. Þeir vita hvað þarf að gera, þeir eru búnir að vinna titla, það gefur manni ótrúlega mikið. Ég er bara ótrúlega ánægður með þessa stráka, við hættum aldrei og erum alltaf klárir,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×