Fótbolti

Allt belgíska landsliðið var sent í kórónuveirupróf í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku og félagar í belgíska landsliðinu bíða nú eftir niðurstöðum úr kórónuveiruprófum sínum í dag.
Romelu Lukaku og félagar í belgíska landsliðinu bíða nú eftir niðurstöðum úr kórónuveiruprófum sínum í dag. Getty/Philippe Croche

Leikur Belgíu og Íslands gæti verið í hættu séu fleiri leikmenn belgíska landsliðsins smitaðir en belgíska knattspyrnusambandið þurfti að bregðast við fréttum gærkvöldsins.

Belgar mæta Íslendingum í Þjóðadeildinni í kvöld en í gærkvöldi kom upp smit innan leikmannahópsins hjá Belgíu sem hefur haft sínar afleiðingar.

Belgíska knattspyrnusambandið tilkynnti það á Twitter síðu sinni í dag að allir leikmenn og starfsmenn belgíska landsliðsins munu gangast undir kórónuveirupróf í dag.

Club Brugge leikmaðurinn Brandon Mechele greindist með kórónuveiruna í gær og hefur yfirgefið belgíska hópinn. Brandon Mechele kom ekki við sögu í 2-0 sigri Belga á Dönum á laugardaginn.

Í frétt RTBF í Belgíu er haft eftir Philippe Rosier, yfirmanni heilbrigðismála hjá belgíska knattspyrnusambandinu, að leikurinn við Ísland sé ekki í hættu.

Mechele fór strax í einangrun en aðrir eig að geta tekið þátt í leiknum. Það gæti hins vegar breyst snögglega séu fleiri leikmenn eða starfsmenn smitaðir.

Fari allt á versta veg fyrir Belga þá gæti Íslandi verið dæmdur 3-0 sigur í leiknum í kvöld.

Leikurinn á að hefjast klukkan 18.45 í kvöld og hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst með upphitun klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×