Íslenski boltinn

Keflavík nær Pepsi Max-deildinni | Jafnt hjá Grindavík og ÍBV

Sindri Sverrisson skrifar
Ástralinn Joey Gibbs er langmarkahæstur í Lengjudeildinni með 16 mörk.
Ástralinn Joey Gibbs er langmarkahæstur í Lengjudeildinni með 16 mörk. mynd/@keflavik

Keflavík vann mikilvægan 3-1 sigur gegn Þór á Akureyri í baráttunni í efsta hluta Lengjudeildar karla í fótbolta. Keflvíkingar náðu þar með forskoti á ÍBV og Grindavík sem gerðu 1-1 jafntefli.

Þórsarar komust yfir á Akureyri í dag með marki Alvaro Montejo eftir korters leik, en Keflvíkingar svöruðu með þremur mörkum áður en fyrri hálfleikur var búinn. Josep Gibbs skoraði tvö mörk og Ignacio Heras eitt.

Keflavík er nú með 24 stig í 4. sæti, stigi á eftir ÍBV og tveimur stigum á eftir Leikni R. en með tvo leiki til góða á þessi lið. Keflvíkingar eiga einnig tvo leiki til góða á topplið Fram sem er með 31 stig.

Grindavík er með 21 stig í 5. sæti, stigi fyrir ofan Þór og með leik til góða á Fram, Leikni og ÍBV.

Samkvæmt textalýsingu Fótbolta.net var það Sigurður Bjartur Hallsson sem kom Grindavík yfir gegn ÍBV í dag á 49. mínútu en Jonathan Glenn jafnaði fyrir ÍBV korteri síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×