Fótbolti

Southgate segir allt öðruvísi að mæta Danmörku en Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Southgate þakkar Guðlaugi Victori Pálssyni fyrir leikinn á Laugardalsvelli á laugardag.
Gareth Southgate þakkar Guðlaugi Victori Pálssyni fyrir leikinn á Laugardalsvelli á laugardag. VÍSIR/GETTY

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, þurfti að bregðast skjótt við í morgun eftir að í ljós kom að Mason Greenwood og Phil Foden hefðu brotið sóttkvíarreglur á Íslandi.

„Ég fékk þær upplýsingar í morgun að því miður hefðu tveir strákanna brotið Covid-reglurnar varðandi okkar örugga, lokaða umhverfi. Við urðum því að ákveða mjög fljótt að þeir mættu ekki eiga nein samskipti við aðra í liðinu, færu ekki með á æfingu, og að í ljósi þeirra tilmæla sem við þurfum að fara eftir þyrftu þeir að ferðast heim til Englands með annarri leið en við hinir,“ sagði Southgate við fjölmiðlamenn.

Southgate er nú farinn til Danmerkur með sitt lið, án tvíeykisins unga sem var sent heim til Englands, en Danmörk og Englands eigast við annað kvöld á sama tíma og Belgía og Ísland. Danmörk tapaði 2-0 á heimavelli gegn Belgíu á laugardag. England vann þá 1-0 sigur gegn mjög varnarsinnuðu liði Íslands en Southgate reiknar með sókndjarfari mótherjum í Kaupmannahöfn:

„Já, þetta verður allt öðruvísi leikur. Danir áttu mjög góðan leik gegn Belgíu og ég tel þá hafa verið mjög óheppna að tapa leiknum. Þeir pressuðu af ákefð, eiga leikmenn sem eru mjög góðir með boltann, og þetta verður ólík prófraun fyrir okkar varnarleik.

Við munum líka þurfa að eiga við mjög góða varnarmenn en það verður meira pláss til að vinna með vegna þess hvernig Danmörk spilar. Ísland varðist augljóslega mjög aftarlega, sem var skynsamlega gert, en Danmörk mun koma framar gegn okkur og það verður meira pláss til að sækja í,“ sagði Southgate.

Klippa: Southgate í viðtali eftir Íslandsdvöl

Tengdar fréttir

Greenwood og Foden greiða 250 þúsund krónur í sekt

Mason Greenwood og Phil Foden, leikmenn enska landsliðsins, hafa lítinn áhuga á að dvelja á Íslandi stundinni lengur og má reikna með því að innan klukkustundar hafi þeir greitt 250 þúsund króna sekt fyrir brot á sóttkví.

Greenwood og Foden báðust afsökunar

Ungstirni enska landsliðsins báðust afsökunar á að hafa brotið sóttvarnarreglur með því að fá heimsókn upp á hótel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×