Fótbolti

Ensku ungstirnin úr leik eftir heimsóknina á hótelið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Greenwood með boltann í leiknum á laugardaginn. Til hægri sést Phil Foden í síma sínum á hótelherbergi en um er að ræða skjáskot úr myndbandinu sem íslensku stúlkurnar birtu.
Greenwood með boltann í leiknum á laugardaginn. Til hægri sést Phil Foden í síma sínum á hótelherbergi en um er að ræða skjáskot úr myndbandinu sem íslensku stúlkurnar birtu.

Ensku landsliðsmennirnir Phil Foden og Mason Greenwood, sem báðir spiluðu sinn fyrsta A-landsleik gegn Íslandi á laugardag, eru í vondum málum eftir heimsókn íslenskra stúlkna á hótelherbergi þeirra í gær. Leikmennirnir voru ekki með á æfingu landsliðsins í morgun og verða ekki hluti af enska landsliðshónum sem mætir Dönum á morgun.

Enskir miðlar greina frá því að von sé á því að Greenwood og Foden verði skildir eftir á Íslandi þegar landsliðið flýgur utan til Kaupmannahafnar síðdegis. Ástæðan mun vera brot þeirra á sóttvarnareglum en enska liðið á að halda sig frá öðru fólki á meðan ferðalagi þeirra stendur.

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðins, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að hann væri meðvitaður um að tveir leikmenn liðsins hefðu brotið sóttvarnareglur. Tryggja þurfi að þeir leikmenn komist ekki í tæri við aðra í hópnum. Málið sé í skoðun og Southgate segist ekki ætla að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Af sóttvarnaástæðum sökum kórónuveirufaraldursins hafa landsliðshópar í knattspyrnu, þar á meðal sá íslenski og enski, strangar reglur á meðan verkefnum stendur. Leikmenn eiga að halda sig frá öllum sem tengjast ekki landsliðshópnum.

Íslensku stúlkurnar birtu eftirfarandi myndskeið af heimsókninni á Snapchat.

Fjarri góðu gamni gegn Dönum

Þeir tóku ekki þátt í æfingu enska landsliðsins í morgun og var fyrst um sinn talið að þeir væru meiddir. Allt bendir hins vegar til þess að heimsókn íslensku stúlknanna og brot á sóttvarnareglum sé ástæðan.

Báðir léku þeir sinn fyrsta A-landsleik á laugardaginn. Foden byrjaði inn á en Greenwood kom inn af bekknum er staðan var enn markalaus. Englendingar unnu 1-0 sigur með marki í blálokin úr vítaspyrnu.

Svipmyndir úr leiknum má sjá að neðan.

Þeir munu þar af leiðandi ekki ferðast með Englendingum til Danmerkur síðar í dag en Englendingar mæta Danmörku annað kvöld á Parken. Danir töpuðu fyrsta leiknum í Þjóðadeildinni 2-0 gegn Belgíu.

Á borði íslensku lögreglunnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur heimsókn íslensku stúlknanna á sínu borði.

„Þetta er ekki gott mál ef rétt reynist,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi. „Ég reikna með því að það verði skoðað.“

Spurður hvort að stúlkurnar verði settar í sóttkví vegna þessarar heimsóknar svarar Guðmundur: 

„Það er góð spurning, en ég get ekki svarað því svona einn, tveir og þrír.“

Málið er áberandi í ensku pressunni í morgun.

Guðmundur segir að meta þurfi hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessari frásögn.

„Það er alvarlegur hlutur að brjóta sóttvarnalögin. Það eru sektir við því en eins og sakir standa get ég lítið sagt um málið á þessu stigi.“

Sektir við broti á sóttvarnalögum nema allt að 250 þúsund krónum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×