Fótbolti

Leikmannahópur Englands metin á milljarð pund

Ísak Hallmundarson skrifar
Leikmannahópur Englands er sá dýrasti í heimi.
Leikmannahópur Englands er sá dýrasti í heimi. getty/Haflidi Breidfjord

Enska landsliðið kom í heimsókn í Laugardalinn í gær og mætti íslenska landsliðinu í Þjóðadeild UEFA.

Englendingar unnu á endanum dramatískan 1-0 sigur, sigurmarkið skoraði Raheem Sterling af vítapunktinum í uppbótartíma. Kyle Walker hafði fengið rautt spjald á 70. mínútu og spilaði Ísland manni fleiri í 19 mínútur, þar til Sverrir Ingi Ingason fékk rauða spjaldið.

Eftir að Sterling kom Englandi yfir fékk Ísland kjörið tækifæri til að jafna úr vítaspyrnu á lokamínútu uppbótartímans en Birkir Bjarnason skaut yfir markið frá vítapunktinum.

Það sem vekur athygli er að leikmannahópur Englands er sá langdýrasti í Þjóðadeildinni, raunar sá dýrasti í heimi, á meðan íslenski landsliðshópurinn er í 38. sæti á þeim lista.

Landsliðshópur Íslands er metinn á 23,5 milljónir punda en sá enski er metinn á einn milljarð punda. Í öðru sæti er franski landsliðshópurinn sem metinn er á 882,9 milljónir punda og þar á eftir kemur sá ítalski, metinn á 847 milljónir punda. Enski hópurinn er meira en fjörutíu sinnum dýrari en sá íslenski.

Í enska landsliðinu eru leikmenn eins og Harry Kane, Raheem Sterling, Marcus Rashford, Jadon Sancho, Harry Maguire og Dele Alli. Þeir eru allir metnir á vel yfir 50 milljónir punda og eru Kane, Sterling og Sancho allir metnir á yfir 100 milljónir punda samkvæmt Transfermarkt.

Ef miðað er við verðmæti landsliðshópa má segja að íslenska landsliðið hafi gert ansi vel að tapa jafn naumlega gegn enska landsliðinu og raun bar vitni. Hér má skoða nánar listann yfir verðmætustu landsliðshópa í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×