Fótbolti

Kane feginn að sleppa við að heyra Víkingaklappið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane í viðtali dagsins.
Harry Kane í viðtali dagsins. Mynd/Stöð 2

Harry Kane, framherji Tottenham Hotspur og enska landsliðsins, ræddi við Henry Birgi Gunnarsson um leik Íslands og Englands sem fram fer á Laugardalsvelli á morgun. 

Viðtalið má finna í heild sinni hér að neðan en Kane játar meðal annars að hann sé nokkuð feginn að ekkert Víkingaklapp verði á leik liðanna þar sem ekkert stuðningsfólk er leyft í stúkunni.

Því miður verður ekkert Víkingaklapp á leik Íslands og Englands.Mynd/Stöð 2

Það eru komnir tíu mánuðir síðan Kane spilaði síðast með enska landsliðinu og því smá fiðringur farinn að segja til sín.

„Já ég er mjög spenntur ef ég á að vera hreinskilinn. Komið langt síðan síðast og mikið gerst á þeim tíma sem er liðinn. Hlakka til leikjanna tveggja og vonandi getum við staðið okkur og tekið þann meðbyr með okkur inn í þetta tímabil,“ sagði Kane.

„Maður venst því á endanum þó við myndum auðvitað vilja hafa stuðningsmenn. Það er því miður ekki hægt að svo stöddu. Augljóslega spiluðum við 9-10 leiki í ensku úrvalsdeildinni með enga áhorfendur og við spiluðum leik við Króatíu fyrir rúmlega ári með engum áhorfendum. Fyrir okkur snýst þetta aðallega um það sem gerist á vellinum,“ sagði Kane um áhorfandaleysið.

„Því miður fyrir fjórum árum þá heyrði ég þetta full vel. Við myndum auðvitað vilja að okkar stuðningsfólk væri á leiknum en svona er staðan og við erum tilbúnir að spila erfiðan leik í Þjóðadeildinni,“ sagði Kane þegar Henry Birgir benti honum góðfúslega á að ekkert Víkingaklapp myndi óma um Laugardalsvöll á morgun.

Þá játti Kane því að hann hugsaði enn um tapið gegn Íslandi á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan en það er á ensku og er ótextað.

Leikur Íslands og Englands fer fram á Laugardalsvelli klukkan 16:00 á morgun, laugardag, og er í beinni á Stöð 2 Sport. Klukkutíma fyrir leik hefst upphitun og eftir leik verður hann greindur í þaula.

Klippa: Kane er feginn að sleppa við Víkingaklappið

Sýnt verður beint frá öllum leikjum Íslands í Þjóðadeildinni á Stöð 2 Sport. Riðlakeppnin hefst 5. september og lýkur 18. nóvember á þessu ári. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Ísland - England (Laugardalsvöllur) - 5.9.2020 

Belgía - Ísland (Óvíst) - 8.9.2020

Ísland - Danmörk (Laugardalsvöllur) - 11.10.2020

Ísland - Belgía (Laugardalsvölur) - 14.10.2020

Danmörk - Ísland (Parken) - 14.11.2020

England - Ísland (Wembley) - 18.11.2020


Tengdar fréttir

Vona að þetta verði fjarstæðukenndur dagur

„Þetta gæti auðvitað orðið erfiður dagur fyrir okkur en ég er ekki hræddur,“ segir Erik Hamrén, landsliðsþjálfari í fótbolta, fyrir leik Íslands við England í Þjóðadeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×